Þrír í röð hjá Njarðvík: Spennusigur gegn Grindavík

Njarðvík landaði tveimur stórum stigum í kvöld með spennusigri á Grindavík. Leikurinn var hnífjafn frá upphafi til enda þar sem heimakonur sluppu með sigur. Lokatölur 60-56. Lítið skorað, þéttar varnir og nokkuð stíft fengið að athafna sig varnarlega á báða bóga. Tynice Martin var stigahæst hjá Njarðvík með 17 stig og 5 fráköst en Danielle Rodriques var með 14 stig og 11 fráköst í liði Grindavíkur.

Tynice Martin opnaði stigareikninginn sinn í Subwaydeildinni með þrist fyrir Njarðvík 3-0. Fyrstu stig leiksins og fyrstu stig hennar í deildinni. Þau eru líkleg til að verða nokkuð fleiri. Jafnt var á flestum tölum í fyrsta leikhluta en heimakonur leiddu 18-16 þar sem Tynice var með 7 stig hjá Njarðvík en Danielle 5 í liði Grindavíkur.

Grindvíkingar þéttu raðirnar í varnarleiknum í öðrum hluta og héldu Njarðvík þá í 13 stigum. Staðan 31-33 í hálfleik fyrir Grindavík þar sem heimakonur sögðu farir sínar ekki sléttar gegn vörn gestanna, fannst þær bláu fá að spila nokuð stíft. Tynice með 10 hjá Njarðvík í hálfleik og Daneill 10 sömuleiðis hjá Grindavík. Skotnýting beggja nokkuð döpur en skýrist kannski af þeirri miklu varnarrimmu sem átti sér stað.

Janfræði liðanna hélt áfram í síðari hálfleik. Jana Falsdóttir kom grimm inn í síðari hálfleik fyrir Njarðvíkinga og lét að sér kveða í stigaskorinu. Heimakonur leiddu 48-43 eftir þriðja.

Í fjórða leikhluta héldu vallargestir áfram að naga neglurnar þegar Thea Lucic Jónsdóttir jafnaði metin 48-48 með þrist. Ólöf Óladóttir fékk sína fimmtu villu í upphafi fjórða leikhluta sem sveið fyrir gestina. Það sem þó raunverulega skildi á milli var þegar Ty og Jana settu saman 8 stiga áhlaup fyrir Njarðvík sem komst í 58-51. Grindvíkingar gerðu nokkrar heiðarlegar tilraunir til að jafna en Njarðvík hampaði sigri eins og áður segir 60-56.

Tölfræði leiksins