spot_img
HomeFréttirWright kláraði Hött djúpt úr horninu

Wright kláraði Hött djúpt úr horninu

Höttur og Snæfell áttust við á Egilsstöðum í spennandi leik þrátt fyrir lágt stigaskor. Liðin voru ekkert að raða niður stigum í upphafi en Snæfellingar þó sprækari.

Magnús Bracey setti tvist eftir mínútu og Siggi Þorvalds henti upp þristi og eftir þrjár og hálfa mínútu var staðan 2-8 fyrir Snæfell.  Hattarar gyrtu sig eitthvað í brók og læddu niður einhverjum körfum en gekk ekkert að vinna upp forskotið. Þegar ein og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta komu Simmi og Benni inná hjá Hetti og lífguðu aðeins upp á heimamenn enda báðir ættaðir ofan af Jökuldal og alvörumenn í alla staði og byrjaði Benni á að setja niður sniðskot strax í fyrstu sókn og á þannig heiðurinn af því að skora einu stigin sem komu af bekknum hjá Hattarmönnum. Staðan í hálfleik 14-21 fyrir Snæfell.

Fyrri hluti annars leikhluta var í stórum dráttum þannig að Hattarmenn tóku erfið skot og treystu á einstaklingsframtak en Snæfellingar fengu heldur auðveldlega opin og ágæt skot en tókst þó ekki að skilja heimamenn eftir, sem smá saman bættu sinn leik og fóru að saxa á forskot gestanna. Þegar þrjár og hálf mínúta var eftir keyrði Tobin Carberry eða Tobbi troðsla (eins og hann er aldrei kallaður) á körfuna og setti sniðskot af miklu harðfylgi og fékk vítaskot að auki sem hann nýtti og minnkaði þannig munin í eitt sig eða 26-27. Um þetta leiti var einnig Mirko Stefán Virijevic að stíga upp og vinna gríðarlega vel undir körfunni á báðum endum vallarins og kom hann Hetti yfir í fyrsta skipti í leiknum þegar tvær og hálf voru eftir af öðrum leikhluta 32-30. Snæfellingar kláruðu þó leikhlutan með sjö stigum móti engu og staðan í hálfleik 32-37.

Í upphafi seinni hálfleiks lenti Hreinn illa eftir frákastabaráttu, virtist hafa snúið upp á ökklan og lá óvígur eftir. Útlitið heldur ljótt fyrir Hattarmenn sem höfðu ekki sýnt að þeir hefðu efni á að missa byrjunarliðsmann út af, en skagfirski folinn sýndi að hann er ekki bara fallegur heldur einnig grjótharður og eftir blíðar strokur frá Sverri sjúkraþjálfa var hann kominn aftur inn á völlinn. Liðin skiptust á að taka stutta spretti og var Bracey sprækur hjá Snæfelli en Tobin og Mirko héldu uppi stigaskori heimamanna. Staðan í lok leikhluta 47-50 fyrir Snæfell.

Ekki gekk báðum liðum vel að koma boltanum í gatið í byrjun fjórða leikhluta og má segja að það hafi verið spilað nokkuð fast. Dómarar leiksins leyfðu leiknum að ganga og voru ekkert að flauta of mikið sem er gott. Þegar leikhlutin var hálfnaður var staðan 53-56.

Þegar fjórar og hálf voru eftir tekur Stefán varnarfrákast af harðfylgi kemur boltanum á Tobin, fær hann síðan aftur og fer beint í þrist sem hann setur og kemur Hattarmönnum í forustu 58-56. Snæfellingar fá síðan í framhaldi af því dæmdar á sig fimm sekúndur í innkasti og tapa boltanum en Hetti tekst ekki að skora. Þegar þrjár og hálf mínúta eru eftir fær Tobin klaufalega dæmdar átta sekúndur og Höttur tapar boltanum en Mirko stelur boltanum strax og skorar staðan 60-56.

Ingi Þór tekur leikhlé. Bæði lið reyna mikið en tekst ekki að skora og eftir „air ball“ frá Sherrod Wright tekur Ingi Þór annað leikhlé og ein mínúta og fimmtán sekúndur til leiksloka. Siggi Þorvalds splæsir í rándýran þrist fyrir Snæfellinga og munurinn eitt stig. Þegar 34 sekúndur eru eftir er Snæfell í sókn en Wright fær sóknarvillu og heimamenn fara í sókn og og leyfa skotklukkuni að ganga, rétt áður en skotklukka rennur út keyrir Tobin á körfuna og finnur Mirko á millifærinu sem hittir ekki þegar tíu sekúndur eru eftir, Snæfell nær frákastinu fer í sókn sem lítur ekki sanfærandi út, ítrekað við það að missa boltann en koma honum í hendurnar á Wright sem er djúpt í horninu og splæsir í þriggjastiga körfu á sama augnabliki og tíminn rennur út og Snæfellingar missa sig í fögnuði. Lokaktölur 60-62 fyrir Snæfell.

Atkvæðamestir hjá heimamönnum voru Mirko með 21 stig og 12 fráköst og Tobyn með 20 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar. Eisteinn skilaði 9 stigum og aðrir minna. Athygli vekur að Hattar menn voru með 42% nýtingu í tveggja stiga skotum sínum og 15% nýtingu í þriggja stiga skotum sýnum með aðeins þrjá ofaní í nítján skotum sem er lítt sannfærandi á heimavelli.

Hjá gestunum var S. Wright með 22 stig og Magnús Bracey með 13 aðrir minna.

Það eru til menn sem er skemmtilegra að tala við eftir tapleiki en Viðar Örn þjálfari Hattarmanna, þó var hann spurður álits og sagðist hann ósáttur við sína menn, sagði þá klárlega hafa verið lélega í leiknum og nýtt færi sín mjög illa. Einnig kallaði hann eftir framlagi frá fleiri leikmönnum.

Tölfræði leiksins

Umfjöllun/ Frosti Sigurðarson
Mynd/ Atli Berg Kárason 

Fréttir
- Auglýsing -