Allt stefnir í að landsliðsmaðurinn Haukur Helgi Pálsson semji við lið Njarðvíkur í Domino’s-deild karla í körfubolta. Framherjinn samdi til sex vikna við þýska 1. deildar liðið Mitteldeutscher BC þann 29. september. Ekki er útlit fyrir að vera hans hjá félaginu verði lengri segir í frétt Vísis sem birtist nú laust eftir klukkan tíu í kvöld.
Í frétt Vísis segir einnig:
Haukur Helgi átti einnig í viðræðum við Grindavík og Stjörnuna en samkvæmt heimildum Vísis kom ekkert út úr þeim. Allar leiðir liggja til Njarðvíkur. Það eina sem stendur í vegi fyrir að tilkynnt verði um skiptin eru viðræður við erlent félag.
Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, staðfesti í samtali við Vísi að félagið hefði verið í viðræðum við kappann undanfarið en ekki væri búið að ganga frá neinu. Hann taldi að málin myndu skýrast á næstu dögum.