Valsmenn hafa fengið til sín Philip Perre sem hefur gert garðinn frægan hjá Þór Þorlákshöfn í vetur. Philip Perre er 8. stigahæsti maður deildarinnar með rétt tæp 20 stig á leik og hefur ásamt því verið að hirða 9 fráköst á leik. Perre lék síðast með Þór Þ. gegn FSU þann 21. janúar síðastliðin. Það er því ljóst að Perre mun styrkja lið Valsmann verulega þegar það styttist óðum í úrslitakeppni um úrvalsdeildarsætið eftirsótta.
Lárus Blöndal, formaður körfuknattleiksdeildar Vals, segir Perre vera “góða viðbót við leikmannahópinn. Við erum með flotta stráka en höfum verið að tapa nokkrum leikjum naumlega. Við misstum sterka leikmenn rétt fyrir jól. Gummi Kristjáns fór í nám til Bandaríkjanna, Gylfi Geirs fór að vinna í Kanada og Páll Fannar ákvað að snúa aftur í KR. Þetta er blóðtaka og því nauðsynlegt að styrkja okkur eitthvað fyrir lokasprettinn”.
Valsmenn eiga nú eftir fjóra leiki fram að úrslitakeppni. Það eru heimaleikir gegn Hetti og Breiðablik og útileikir gegn FSu og Laugdælum. Eins og staðan er í deildinni getur allt gerst en Valsmenn eru jafnir FSu með 16 stig og bæði Breiðablik og Skallagrímur eru þar fyrir ofan með 18 stig og Þór Akureyri með 20 stig. Þór Þorlákshöfn hefur haft mikla yfirburði í vetur og tróna á toppnum með 30 stig, taplausir.
Það eru því Valur, Breiðablik, Skallagrímur, FSU og Þór Akureyri sem berjast um heimavallaréttinn í úrslitakeppninni í þeim fjórum leikjum sem eftur eru.
Mynd/ Torfi: Hörður Helgi Hreiðarsson er kominn með nýjan liðsfélaga í Philip Perre.
Gísli Ólafsson