Valur lagði KR í kvöld í 13. umferð Dominos deildar karla, 77-87. Eftir leikinn er KR í 3.-4. sæti deildarinnar með 18 stig líkt og Þór á meðan að Valur er í 7. sætinu með 12 stig.
Gangur leiks
Leikurinn var hnífjafn í upphafi og ljóst að leikmenn beggja liða voru tilbúnir að selja sig dýrt fyrir sigur í kvöld. Allt í járnum eftir fyrsta, 25-25. Undir lok fyrri hálfleiksins er leikurinn svo áfram spennandi, munar aðeins stigi á liðunum þegar að haldið er til búningsherbergja, 43-42.
Nýlegur leikmaður Vals, Jordan Roland, gjörsamlega stórkostlegur í fyri hálfleiknum á sóknarhelminigi vallarins, skilaði 24 stigum úr 13 skotum teknum af vellinum í hálfleiknum.
Í upphafi seinni hálfleiksins er leikurinn enn í járnum. Eftir þrjá leikhluta er Valur 2 stigum á undan, 64-66. Í fjórða leikhlutanum nær Valur um leið smá áhlaupi og 6 stiga forskoti, sem var á þeim tíma mesta forysta annars hvors liðsins í leiknum til þessa. Í framhaldi af því ganga þeir svo enn frekar á lagið. Þjálfari KR, Darri Freyr Atlason, er svo rekinn út úr húsi þegar rúmar 6 mínútur eru eftir af leiknum fyrir munnsöfnuð. Eftir það má segja að ákveðinn neisti hafi slokknað hjá heimamönnum og Valur siglir nokkuð öruggum 10 stiga sigri í höfn 77-87.
Kjarninn
Valsmenn virðast vera að finna taktinn sinn eftir brösuga byrjun á tímabilinu. Bæði sigurinn gegn ÍR síðustu helgi og gegn KR í kvöld sýna að liðið er allt að koma til og mun gera tilkall að titlum þennan veturinn.
Að sama skapi var þessi leikur líklega einn sá versti sem sjóðandi heitir KR-ingar hafa spilað á síðustu vikum. Hafandi unnið fimm leiki í röð fyrir kvöldið, er algjör óþarfi að draga of mikinn lærdóm af frammistöðu þeirra í þessum leik.
Þakkir & Lag
Hallarþulur KR-inga taldi það upp fyrir leik hvaða leikmenn Vals hefðu áður verið leikmenn KR, hversu marga titla þeir höfðu unnið og kom á framfæri þökkum frá félaginu til þeirra. Fallegt af KR, bæði að gera það, sem og minna alla viðstadda á hvaðan mennirnir kæmu.
Þá lék Högni Egilsson fyrrum körfuboltamaður úr Val og tónlistarmaður leika lag og sagði nokkur orð um tjáningarfrelsið, en hann vinnur þessar mundir með Íslandsdeild Amnesty að verkefni sem betur má kynna sér hér.
Atkvæðamestir
Fyrir heimamenn í KR var Brandon Nazione atkvæðamestur með 15 stig og 8 fráköst. Fyrir gestina var það Jordan Roland sem dróg vagninn með 40 stigum og 2 fráköstum.
Hvað svo?
Bæði lið leika næst 18. mars. Valur tekur á móti Tindastól í Origo Höllinni á meðan að KR mætir Hetti á Egilsstöðum.
Myndasafn (Guðlaugur Ottesen)