Tveir leikir fóru fram í Iceland Express deild karla í kvöld þar sem Íslandsmeistarar Snæfells stálu toppslagnum í Röstinni og lögðu heimamenn 86-90. Um magnaðan spennuleik var að ræða þar sem Hólmarar settu sjö stig á Grindavík á síðustu mínútu leiksins og fóru þeir Jón Ólafur Jónsson og Pálmi Freyr Sigurgeirsson þar fremstir í flokki með hvað fífldjörfustu körfurnar.
Grindavík 86-90 Snæfell
Ryan Pettinella var óstöðvandi í liði Grindavíkur með 35 stig og 20 fráköst. Jón Ólafur Jónsson leiddi svo Snæfell áfram með 26 stig og 8 fráköst en Jón og Pálmi Freyr settu lykilkörfur Snæfells í leiknum á lokasprettinum þegar mest á reyndi. Magnaður karaktersigur Hólmara sem voru undir 82-74 þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.
Keflavík 116-85 Fjölnir
Thomas Sanders var stigahæstur hjá Keflavík með 19 stig en fimm leikmenn Keflavíkur gerðu 10 stig eða meira í leiknum. Hjá Fjölni var Brandon Springer með 26 stig og 6 fráköst.
Eftir leiki kvöldsins eru Hólmarar því komnir með fjögurra stiga forskot á toppi deildarinnar. Fresta varð viðureign KFÍ og Hamars sökum veðurs en leikurinn fer fram annað kvöld.
Þá áttu Þórsarar frá Akureyri ekki í vandræðum með Ármann í 1. deild karla. Lokatölur fyrir norðan 95-52 Þór í vil.
Nánar síðar…
Mynd/ Jón Björn: Ingi Þór og Zeljko Bojovic fagna sigrinum í leikslok.