Þórsarar tóku á móti taplausum Keflvíkingum í Glacier höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Jafnræði var með liðunum til að byrja með en upp úr miðjum fóru Þórsarar í gang og leiddu eftir fyrsta leikhlutann 25-15. Allt gekk að óskum hjá heimamönnum bæði í vörn og sókn og skoruðu þeir körfur í öllum regnbogalitum. Á sama tíma gekk ekkert upp hjá Keflvíkingum og áttu þeir erfitt með að finna taktinn. Sóknarleikur þeirra var tilviljunarkenndur og gekk erfiðlega að ná upp liðsspili og flæði í sóknarleiknum.
Í öðrum leikhluta var svipað upp á teningnum og Þórsarar héldu áfram að láta fyrir sér finna og voru hvergi bangnir. Keflvíkingar voru ekki að finna fjölina fyrir utan þriggja stiga línuna og voru þeir núll af átta í þristum þegar haldið var til búningsherbergja á meðan heimamenn hittu sjö af níu. Þórsarar fóru sáttir inn í hálfleikinn þar sem þeir fengu aðeins á sig 25 stig í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 43-25.
Augljóst var að Keflvíkingar höfðu fengið góða hárþurrku í hálfleik frá Helga Jónasi því þeir mættu sterkari í seinni hálfleikinn. Undir lok þriðja leikhluta hafði William hinn sjötti Graves fengið nóg af trúðslátum sinna manna og fór að setja niður skotin sem höfðu verið svo víðsfjarri í fyrri hálfleik. Keflvíkingar hófu að saxa á forskot heimamanna og undir lok þriðja leikhluta höfðu þeir minnkað muninn í 60-53.
Allt stefndi í æsispennandi leik og áhorfendur voru byrjaðir að vakna til lífsins. Augljóst var að sóknarleikur Keflvíkinga í síðasta fjórðungnum átti að fara í gegnum Damon og Graves en þeir léku heimamenn gráa í vagg og veltu leik sínum. En undir lokin virtust árin hafa talið hjá gestunum og skotin urðu stutt, heimamönnum til mikils léttis. Undir lokin gat þetta lent á báða vegu en eftir stórt sóknarfrákast frá Þorsteini á síðustu mínutunni, þegar heimamenn voru 3 stigum yfir, nýttu þeir tækifærið vel með frástökkvandi sniðskoti frá Baldri. Keflvíkingar fengu síðar einn möguleika til að jafna en það skot geigaði og leikurinn kláraðist á vítalínunni, Þórsurum í vil 80-75.
Vincent Sanford var stigahæstur heimamanna með 23 stig og 8 fráköst, Grétar Erlendsson átti flottann leik og skoraði 14 stig, Tómas Tómasson skoarði 13 stig og bætti Emil við 13. Hjá Keflvíkingum var William hinn sjötti Graves með 25 stig og 9 fráköst, Damon Johnson skoraði 20 stig og tók 10 fráköst og Guðmundur Jónsson skoraði 12 stig.
Skemmtilegar staðreyndar leiksins:
- Keflvíkingar hittu engu af þriggjastiga skotum sínum í fyrri hálfleik
- Þórsarar hittu úr öllum vítaskotum sínum í leiknum
- Oddur Ólafsson var frákastahæstur heimamanna ásamt Vincent
- Grétar Ingi missteig sig í miðjum fjórða leikhluta þegar leikurinn var í járnum en skjót viðbrögð sjúkraþjálfara Þórsara komu honum aftur inná til þess að klára leikinn aðeins mínútu síðar.
- William hinn sjötti Graves klúðraði troðslu í fjórða leikhluta í miðju Keflarvíkuráhlaupi
- Dómarar leiksins áttu afbragðsleik
Umfjöllun: Hjalti Valur