Taplaus lið Stólanna og KR mættust í DHL-höllinni í kvöld. Það er í raun bjánalegt að tala um lið Tindastóls sem einhverja nýliða í deildinni enda fer þar afar spennandi og vel mannað lið. Frasinn góði um blöndu ungra og efnilegra leikmanna og reynslujálka er eiginlega óumflýjanlegur. Spennandi var að sjá hvort sú blanda hefði eitthvað í öfluga heimamenn.
Fum og fát einkenndi leik beggja liða í byrjun leiks. KR-ingar slysuðust að vísu til að setja nokkra þrista á fyrstu mínútunum á meðan gestirnir gátu ekki keypt körfu. Pétur Rúnar braut loksins ísinn fyrir Stólana þegar meira en 6 mínútur voru liðnar af leiknum og minnkaði muninn í 12-2! Ef áhorfendur héldu að fumið og fátið skýrðist af byrjunarerfiðleikum þá skjátlaðist þeim illilega, einkum KR-megin. Stólunum til bjargar höfðu KR-ingar tapað nokkrum boltum fram að þessu og voru hvergi nærri þreyttir á því! Heimamenn glutruðu boltanum frá sér í gríð og erg sem leiddi til 12-3 spretts gestanna – staðan 15-14 eftir fyrsta fjórðung. KR-ingar með 10 tapaða bolta í leikhlutanum!
Stólarnir höfðu ekki sett þrist í 5 skotum fram að þessu en það var eins og Helgi Freyr hefði hlustað á hugsanir undirritaðs og hóf stórskotahríð fyrir utan línuna. KR-ingar héldu áfram að tapa boltanum á meðan Helgi Freyr smellti fjórum þristum á skömmum tíma – Stólarnir skyndilega 24-34 yfir og leikhlutinn rúmlega hálfnaður. En gestunum virtist vera álíka illa við forskotið og KR-ingum við boltann. Skotval gestanna varð stórundarlegt og Brilli leiddi áhlaup gestanna með 11 stig á lokakafla leikhlutans. KR aftur komnir yfir, staðan 42-36 í leikhléi.
KR-ingar voru öllu beittari fyrri hluta þriðja leikhluta og komu sér í ágæta stöðu, 60-50, er rúmar 3 mínútur voru eftir. Þá varð knötturinn aftur að eldhnetti í höndum heimamanna og Stólarnir nýttu sér það. Ungu piltarnir Ingvi og Pétur hjá Stólunum höfðu ekki náð að sína sparihliðarnar fram að þessu en þeim óx heldur betur ásmegin og áttu stóran þátt í því að koma gestunum inn í leikinn aftur. Einungis 1 stig skildi liðin að, 63-62 eftir þrjá leikhluta. Þarna voru tapaðir boltar orðnir 18 hjá KR!
Ingvi Rafn hélt uppteknum hætti í fjórða leikhluta og með þristum og gegnumbrotum komu Stólarnir sér aftur í forystu, fyrst 63-69 og svo 68-75 er 3 og hálf mínúta lifði leiks. Enn héldu KR-ingar sig við það að tapa boltanum og spurning hvort gestirnir myndu svara því með því að henda frá sér forskoti aftur…? Og sú varð raunin! Þegar rúmar tvær mínútur voru eftir náðu KR-ingar fjögurra stiga sókn, öll stigin frá Craion og Myron fékk jafnframt sína 5 villu hjá gestunum! Craion hlaut sömu örlög strax á eftir og kannski jafnt á komið. Örskömmu síðar höfðu KR-ingar bætt fjórum stigum við og Helgi Rafn fokinn útaf með 5 villur. Það var svo enn heil mínúta og 24 sekúndur eftir þegar Brilli kom KR 76-75 yfir með vítum. Ótrúlega kaflaskiptur leikur, jafn röndóttur og treyjur heimamanna! Stólarnir héldu áfram að velja sér vægast sagt furðuleg skot en Lewis smellti þó góðu skoti er 40 sekúndur voru eftir. KR-ingar náðu ekki að skora í næstu sókn og sendu ískaldan Svavar á línuna er 24 sek. voru eftir. Annað fór niður. Brilli jafnaði svo úr vítum, 78-78 eftir klaufalegt brot, 14 sek. eftir og mikil spenna! Bæði lið afrekuðu svo aðeins það á þessum 14 sekúndum að missa boltann og þar með framlenging staðreynd.
Í framlengingunni var eins og að allur vindur væri úr liði gestanna. Þeir höfðu vissulega misst tvo mikilvæga leikmenn á bekkinn með fimm villur og kannski má segja að breiddin hafi skilað öruggum KR-sigri í hús í framlengingunni. Helgi Már fór fyrir sínum mönnum og setti hann 5 fyrstu stig KR í framlengingunni og gestirnir áttu fá svör. Flake kom fyrst inn á í lokin en fimm stig frá honum dugðu skammt. Heimamenn kláruðu leikinn með sæmd af línunni og enduðu leikar með 95-89 sigri þeirra.
Bæði lið eiga hrós skilið fyrir stórskemmtilegan leik. Kannski ekki best spilaði leikurinn í manna minnum en það skiptir engu máli! Miklar sviptingar og spenna, tapaðir boltar hægri vinstri og mikið fjör. Stólarnir hafa nú sýnt að þeir eiga í fullu tré við KR-inga og gefur það kannski fyrirheit um spennandi keppni í vetur.
Hjá heimamönnum var Brilli brillíant með 28 stig og átta fráköst, Helgi einnig frábær með 22 stig og 9 fráköst. Lewis var bestur gestanna með 24 stig og ellefu fráköst, Ingvi bætti við 20 stigum og Helgi Freyr 18.
Umfjöllun: Kári Viðarsson