KR-ingar byrja þessa leiktíð með auðveldum sigri á Njarðvík 92-78. KR-ingar fóru hægt af stað og hikstuðu örlítið á stífum varnarleik Njarðvíkinga í upphafi leiks en gestirnir héldu heimamönnum í 1/6 í þristum sem heyrir til tíðinda á þeim bænum. Njarðvíkingum tókst líka að yfirspila KR í sókn á tímabili.
Adam var hins vegar ekki lengi í Paradís. KR vélin hrökk í gang og rúllaði upp öðrum fjórðung 27-16 og náði góðri 14 stiga forystu fyrir leikhlé. Það var Björn Kristjánsson sem lokaði fyrri hálfleik með körfu úr hraðaupphlaupi ásamt einu vítaskoti.
Sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik. Mike Craion fékk boltann niðri á blokkinni og kláraði yfir varnarmann sinn, ef hann fékk ekki tvídekkun. Ef hann var tvídekkaður var hann fljótur að finna opinn mann í skotið sem iðulega rataði ofan í körfuna. Njarðvíkingar áttu fáar lausnir við vel smurðum sóknarleik KR-inga. Mirko gerði það sem hann gat en meira er ekki hægt að biðja um á móti leikmanni eins og Craion.
Skilvirknin var mjög góð hjá KR í fyrstu þremur leikhlutunum eða 1,1 stig per sókn en féll niður í 0,94 í þeim fjórða sem spilaður var að megninu til af varamönnum KR. Njarðvíkingar hins vegar nýttu þann tíma vel til að skora oft og iðulega en leikurinn var aldrei í hættu og endaði með öruggum sigri heimamanna 92-78.
Litlu breytti fyrir KR að leikstjórnandi liðsins, Pavel Ermolinskij væri meiddur en hann haltraði yfir völlinn í lok leiks og studdi sig við hækju. Allir í liðinu komu á einhverjum tímapunkti upp með boltann, að undanskildum Finni Magnússyni. Craion var jafnvel farinn að stjórna spilinu á tímabili.
Það er fátt neikvætt um KR liðið að segja nema hvað aðeins þeir geta verið sinn eigin óvinur.
Njarðvíkingar voru brösóttir og handahófskenndir í sóknarleik sínum. Boltinn gekk oft illa og menn að sætta sig við erfið skot langt utan af velli. Logi fór fyrir sínum mönnum eins og von var á en hann getur ekki gert þetta allt einn. Meira framlag vantar frá fleirum. Salisbery átti marga mjög góða spretti en fékk lítið frá dómurum leiksins og lét það hlaupa í skapið á sér og uppskar tæknivillu og dvöl á bekknum fyrir vikið.
Hjá KR var Mike Craion nánast óstöðvandi með 29 stig, 18 fráköst og 37 framlagsstig. Björn Kristjánsson bætti við 15 og Darri Hilmarsson með 14.
Logi Gunnarsson leiddi Njarðvíkinga með 15 stig, Mirko Virijevic bætti við 13 stigum og 15 fráköstum og Dustin Salisbery skoraði einnig 13 stig.
Mynd: Mike Craion var betri en enginn fyrir KR í kvöld með 29 stig og 18 fráköst. Hér í leik gegn ÍR í Lengjubikarnum. (JBÓ)