Yngri landslið Íslands náðu í tvo sigra í þremur leikjum í dag. Undir 16 ára liðin skiptu með sér sigrum á Norðurlandamótinu í Kisakallio á meðan undir 18 ára stúlknalið Íslands lagði Bosníu á Evrópumótinu í Litháen.
Fyrri leik dagsins vann undir 16 ára drengjalið Íslands gegn áður ósigruðu liði Danmerkur, 85-63. Segja má að íslensku strákarnir hafi verið með þá dönsku í vasanum lengst af í leiknum. Leikar héldust þó nokkuð jafnir fram í upphaf þess fjórða, þegar Ísland setti fótinn á bensínið og kláraði leikinn. Bestur í liði Íslands í dag var Benóní Andrason með 24 stig, 13 fráköst og 2 stolna bolta. Lokaleikur Íslands á mótinu er gegn Finnlandi á morgun, en fyrir hann eiga þeir góða möguleika á að vinna silfur á mótinu. Ákkúrat núna eiga þeir einnig möguleika á að vinna gullið, en til þess þarf Svíþjóð að tapa síðustu tveimur leikjum sínum með umtalsverðum mun (ólíklegt)
Leikur undir 16 ára stúlkna var öllu verri. Þar var það íslenska liðið sem elti allan tímann í gífurlega hröðum og leik. Niðurstaðan var að lokum sigur Danmerkur, 53-61, í leik sem Ísland hefði náð að stela eða vinna á öðrum degi. Inga Ingadóttir var atkvæðamest í liði Íslands í dag með 5 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar og 7 varin skot. Lokaleikur Íslands á mótinu er á morgun gegn Finnlandi, en fyrir hann eiga þær möguleika á að vinna bronsverðlaun á mótinu.
Þá var það undir 18 ára stúlknalið Íslands sem leikur á Evrópumóti í Vilníus í Litháen sem vann sinn leik gegn Bosníu gífurlega örugglega, 77-110. Þar var það Rebekka Rut Steingrímsdóttirdóttir sem var best fyrir Ísland með 20 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar. Ísland hefur nú unnið einn leik og tapað einum það sem af er móti og leika næst gegn Kósovó á morgun.