Undir 16 ára drengjalið Íslands lagði Danmörk í dag í fjórða leik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio. Það sem af er hefur liðið því unnið þrjá leiki og tapað einum, en lokaleikur þeirra á mótinu er á morgun gegn Finnlandi.
Fyrir leik
Það sem af var móti hafði íslenska liðið unnið tvo gegn Eistlandi og Noregi, en mátt þola tap gegn Svíþjóð. Vonir um að komast á verðlaunapall þó vel til staðar, en til þess að það ætti að eiga sér þurfti liðið sigur í öðrum eða báðum leikjum helgarinnar.

Gangur leiks
Íslenska liðið hóf leikinn af gríðarlegum krafti. Komast sóknarlega hvað eftir annað að körfunni, eru duglegir að koma sér á línuna og frákasta vel. Uppskera 11 stiga forskot að fyrsta fjórðung loknum, 27-16.
Í öðrum leikhluta gera drengirnir vel að svara áhlaupum Danmerkur. Forskot Íslands fer þó ekki inn fyrir sex stig undir lok hálfleiksins, en þegar liðin halda til búningsherbergja er munurinn átta stig, 42-34.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Benóní Andrason með 13 stig og Steinar Rafnarson með 7 stig.
Íslenska liðið fer mun hægar af stað sóknarlega í seinni hálfleiknum heldur en þeir höfðu gert í þeim fyrri. Heppilega heldur vörn þeirra ágætlega og hanga þeir því enn á forskoti sínu inn í lokaleikhlutann, 55-49.
Fjórða leikhlutann opnar íslenska liðið á 11-3 áhlaupi og eru þeir því aftur komnir með fínt bil á milli sín og Danmerkur þegar sjö mínútur eru til leiksloka, 65-52. Íslensku drengirnir líta í raun aldrei til baka eftir það, láta kné fylgja kviði og klára leikinn með gífurlega öruggum sigri, 85-63.
Kjarninn
Þriðja leikinn í röð nær íslenska liðið að koma andstæðingum sínum á óvart með gífurlegum krafti og áræðni á fyrstu mínútum leiksins. Líkt og gegn Eistlandi á fimmtudag dvínaði orkan í seinni hálfleiknum og náði Danmörk að ýta þeim útúr sínum aðgerðum í þriðja fjórðungnum nægilega til að komast inn í leikinn. Ólíkt leiknum í gær gegn Eistlandi kemst liðið aftur á alvöru flug í þeim fjórða í dag og gera þeir vel að hleypa Dönum ekki inn í leikinn.

Atkvæðamestir
Bestur í liði Íslands í dag var Benóní Andrason með 24 stig, 13 fráköst og 2 stolna bolta. Honum næstir voru Kormákur Jack með 9 stig, 8 fráköst, 2 stoðsendingar, Freyr Jónsson með 10 stig, 4 fráköst, 2 stoðsendingar, 5 stolna bolta og Steinar Rafnarson með 11 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar.
Hvað svo?
Lokaleikur drengjanna er á morgun gegn sterku liði Finnlands.