Undir 16 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap gegn Danmörku á Norðurlandamótinu í Kisakallio í Finnlandi í dag, 53-61. Eftir leikinn er liðið því með tvo sigra og tvö töp, en þær leika lokaleik sinn á mótinu á morgun gegn heimastúlkum í Finnlandi.
Fyrir leik
Þrátt fyrir að hafa misst lykilleikmann sinn Berglindi Hlynsdóttur út í upphafi annars leiks mótsins hefur liðið gert gífurlega vel í þessum þremur leikjum sem búnir eru. Vinna bæði Eistland og Noreg nokkuð örugglega og tapa með aðeins fimm stigum fyrir Svíþjóð í leik þar sem þær leiða lengst af. Líkt og drengirnir, á stúlknaliðið góða möguleika á að komast á verðlaunapall á móti þessa árs, en til þess þurfa þær að vinna annan eða báða leiki helgarinnar.

Gangur leiks
Íslenska liðið leiddi framan af fyrsta fjórðung, mest með sex stigum, en þær dönsku ná að jafna og komast yfir um miðbygg leikhlutans og eru þremur stigum yfir fyrir annan, 17-20. Leikurinn alveg ótrúlega hraður þessar fyrstu mínútur þar sem ljóst var að bæði lið ætluðu að selja sig dýrt fyrir sigur í honum.
Danska liðið er svo betri aðilinn undir lok fyrri hálfleiksins. Eru þó ekkert langt undan. Íslenska liðið klórar sig alltaf til baka. Körfurnar sem danska liðið setur í öðrum leikhlutanum langt frá því að vera auðveldar. Munurinn er fjögur stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 32-36.
Stigahæstar í nokkuð jöfnu íslensku liði í fyrri hálfleiknum voru Sigrún Brjánsdóttir með 8 stig og Inga Ingadóttir með 5 stig.
Sterkar varnir liðanna tveggja eiga sviðið í upphafi seinni hálfleiksins. Miðað við ótrúlegan hraða leiksins er lítið af stigum sem kemst á töfluna. Ísland þó enn vel inni í leiknum fyrir lokaleikhlutann. Aðeins átta stiga munur, 38-46.
Íslenska liðið setur ekki körfu fyrstu fjórar mínútur fjórða leikhlutans. Heppilega komast þær ágætlega af stað þá og er munurinn aðeins fjögur stig þegar fimm mínútur eru eftir, 45-49. Nær kemst íslenska liðið ekki þrátt fyrir góða baráttu og álitlegar tilraunir. Niðurstaðan að lokum danskur sigur í hörkuleik, 53-61.

Kjarninn
Þetta danska lið sem Ísland mætti í dag var líklega það besta sem þær höfðu mætt til þessa á mótinu. Bæði höfðu þær á að skipa frábæra leikmenn sem gátu farið ein á eina á íslensku vörnina trekk í trekk og þá var skipulag þeirra einnig gott á báðum endum vallarins. Svolítið eins og þær hefðu verið búnar að skoða og sjá fyrir marga af þeim hlutum sem Ísland reyndi að framkvæma á báðum endum vallarins. Þó var þetta allt í allt góð frammistaða hjá íslenska liðinu, sem hefðu náð að vinna leikinn ef heilladísirnar hefðu verið með þeim í liði.
Atkvæðamestar
Inga Ingadóttir var atkvæðamest í liði Íslands í dag með 5 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar og 7 varin skot. Henni næstar voru Sigrún Brjánsdóttir með 13 stig, 8 fráköst, Helga Bjarnadóttir með 8 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stolna bolta, Brynja Benediktsdóttir með 7 stig, 2 fráköst, 4 stolna bolta og Arna Eyþórsdóttir með 8 stig og 4 stolna bolta.
Hvað svo?
Lokaleikur stúlknanna á mótinu er á morgun gegn Finnlandi.