spot_img
HomeFréttirTími til að bæta umgjörð á mótahaldi yngri flokka

Tími til að bæta umgjörð á mótahaldi yngri flokka

Nú er kominn tími til að setja meira aðhald, meiri metnað og meiri fagmennsku í mótahald yngri flokka í körfuknattleik.
 
Undirritaðir hafa þjálfað í yngri flokkunum í yfir áratug og telja að nú þurfi að nema staðar og spyrja sig hvort ekki megi gera betur. Undirritaðir hafa ítrekað mætt í fjöllmiðamót með unga og spennta iðkendur, sem bíða eftir því að fá að spila körfubolta. En þegar mætt er í leikina verður upplifunin oft ekki í takt við væntingarnar. Dómgæslan er hipsum-haps, misgóð og aldrei nein lína sem helst á milli leikja. Oft eru unglingar fengnir til að dæma hjá yngri börnum og sumir þeirra eiga erfitt með að ráða við þær erfiðu aðstæður sem þeir eru settir í. Gera sitt besta en missa kannski samt sem áður tökin á leiknum.
 
Ein birtingarmynd þessarar misjöfnu dómgæslu er að íslenskir leikmenn læra „slæma siði“; varnarmenn komast upp með að „hand-checka“ og sóknarmenn komast upp með að lyfta stoðfæti áður en þeir leggja af stað í átt að körfunni, svo einhver dæmi séu tekin.
 
Ritaraborðið er svo gjarnan mannað af börnum, sem reyna sitt besta en hafa oft ekki þekkingu eða reynslu til að standast þær kröfur sem setja þarf til að umgjörð leiksins sé góð. Hefur það gerst oftar en einu sinni og oftar en tvisvar að gleymst hafi að setja stig á leikskýrsluna, sem skapar erfitt andrúmsloft. Tíðir gestir á mótum í yngri flokkunum hafa væntanlega upplifað svona atvik, þegar foreldrar í stúkunni eru farnir að kalla á börnin á ritaraborðinu, rífast og skammast. Aðstæður sem ættu ekki að vera neinum boðlegar. Undirritaðir hafa líka margoft verið á fjölliðamótum þar sem enginn fullorðin er á svæðinu til að sjá um umgjörðina.
 
Sem þjálfarar eyða undirritaðir nánast öllu árinu í æfingar, að byggja upp leikmenn sína og kenna þeim undirstöðuatriðin. Kenna þeim rétta framkomu, kenna þeim réttar reglur, kenna þeim að bera virðingu fyrir sér og öðrum. Gulrótin er vissulega leikirnir. Enda er fátt skemmtilegra en að klæða sig í búning síns félags og keppa á móti öðrum liðum. En leikirnir eru oft ekki að hjálpa til. Þessi skortur á umgjörð er íslenskum körfuknattleik ekki til framdráttar.
 
Margir iðkendur leggja mikið á sig, foreldrar þeirra borga æfingagjöld og að mati undirritaðra á fólk betri þjónustu skilið frá körfuknattleikshreyfingunni.
 
Við teljum að það þurfi að endurskoða þessi mál og leggjum til að einn einstaklingur með dómararéttindi komi að öllum fjöllliðamótum á vegum KKÍ. Við erum jafnframt vissir um að það væri hægt að rukka 500 krónur á barn á fjölliðamótum á vegum KKÍ til að standa straum af auknum kostnaði við dómgæslu. Ef við gefum okkur að fimm lið séu í hverjum riðli, eins og oftast er, ætti þannig að nást 25 þúsund krónur í lítinn sjóð sem nota mætti til að borga dómurum fyrir sína vinnu
 

.

Vissulega verður erfiðara að framkvæma þá hugmynd þegar mótin eru haldin í fámennum sveitarfélögum, en þá biðjum við körfuknattleikshreyfinguna að hugsa frekar í lausnum en vandamálum, því það er löngu kominn tími til að taka þessi mál alvarlega í gegn. Við getum ekki boðið börnunum upp á þetta lengur.
 
Virðingarfyllst,
 
Björn Einarsson, þjálfari Keflavíkur
Kjartan Atli Kjartansson, þjálfari Stjörnunnar
 
Fréttir
- Auglýsing -