Sýning um sögu körfuknattleiks í Borgarnesi var opnuð í íþróttamiðstöð Borgarness síðastliðinn föstudag. Sýningin spannar söguna frá því Guðmundur Sigurðsson kynnti Borgnesinga fyrst fyrir íþróttinni árið 1958. Hún samanstendur af ágripi úr sögu körfuboltans í bænum sem búið er að koma snyrtilega fyrir, einnig eru til sýnis margir merkilegir munir úr sögunni. Má þar nefna gamlar leikskýrslur, ársrit, blaðaúrklippur auk gersema eins og skó sem Alexander Ermolinski notaði á sínum bestu árum. Einnig eru í gangi videóupptökur af sögulegum leikjum Skallagríms í sjónvarpi á staðnum.
Það er Borgnesingurinn og körfuboltaáhugamaðurinn Halldór Óli Gunnarsson sem stendur fyrir sýningunni, en hún er hluti af lokaverkefni kappans í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands. Halldór hefur unnið að verkefninu s.l ár og viðað að sér upplýsingum og munum úr ýmsum áttum og tekið tali marga menn og konur er komið hafa við sögu hjá Skallagrím í gegnum tíðina.
Sem fyrr segir var sýningin opnuð síðasta föstudag og var mörgum gömlum leikmönnum og stjórnarmönnum boðið á opnunina. Guðmundur Sigurðsson "faðir körfuboltans" í Borgarnesi mætti á sýninguna og sagði hann að það væri skemmtileg tilviljun að sýningin væri opnuð fyrir leik gegn Ármanni, sem Skallagrímur mætti í 1.deildinni þá um kvöldið. Því það hefði einmitt verið fyrsta liðið úr Reykjavík sem spilaði í Borgarnesi.
Sýningin verður opin almenningi eitthvað fram eftir vetri í íþróttamiðstöðinni og er aðgangur ókeypis.