spot_img
HomeFréttirSnæfell náði í rándýr stig í Grindavík

Snæfell náði í rándýr stig í Grindavík

Snæfell varð í kvöld fyrst liða til að leggja Grindavík að velli í Domino´s-deild karla þegar liðin mættust í Mustad-höllinni í Grindavík. Hólmarar settu 22 stig á Grindavík síðustu fimm mínútur leiksins og unnu 98-99. Seiglan í gestunum færði þeim sigurinn á meðan Grindvíkingar virtust halda að fjórða deildarsigrinum yrði auðveldlega landað með misgáfulegum „sólóverkefnum.“

Dapur vinnudagur Grindavíkur var svo kórónaður þegar Eric Julian Wise fékk brottvísun eftir leik fyrir orðaskipti sín við dómara. Venju samkvæmt á hann því von á banni en ætti þó að vera löglegur í bikarkeppninni um helgina þar sem mál hans verður væntanlega ekki tekið fyrir af aganefnd fyrr en í næstu viku. Frískandi að leika sinn fyrsta leik hérlendis með 31 stig, 16 fráköst og brottvísun úr húsi. 

Menn fóru hægt í sakirnar í Mustad höllinni framan af en Grindvíkingar urðu þó fyrri til að láta sverfa til stáls, lokuðu fyrsta leikhluta með 13-5 áhlaupi og leiddu 26-16 að honum loknum þar sem Ingvi Þór Guðmundsson kom með fimm stig og ferskar fætur inn af Grindavíkurbekknum. 

Snemma í öðrum leiklhuta náðu Grindvíkingar upp 16 stiga forystu en þá tók Sherrod Nigel Wright til sinna ráða í herbúðum gestanna, tvær troðslur í röð frá kappanum hleyptu kappi í Hólmara sem náðu að minnka muninn niður í átta stig fyrir hálfleik, 49-41. 

Jóhann Árni Ólafsson var stigahæstur Grindvíkinga í leikhléi með 11 stig en Wright var með 17 stig í liði Snæfellinga. 

Fínt slútt hjá Snæfell á öðrum leikhluta kom þeim á bragðið, þegar þriðja leikhluta lauk höfðu gestirnir náð að minnka muninn í tvö stig, 69-71 en þeir Þorbergur Helgi Sæþórsson og Sigurður Þorvaldsson áttu flottar rispur í leikhlutanum en Stefán Karel og Sherrod voru heilt yfir bestu menn Hólmara í kvöld. 

Um miðjan fjórða leikhluta grunaði mann að Grindvíkingar væru að ná flugi, gulir komust í 82-75 og ein af betri skyttum deildarinnar, Austin Bracey, ískaldur í liði gestanna og ekki líklegur til stórræða en annað kom heldur betur á daginn.

Bracey var 0-6 í þristum en loks fannst fjölin góða og tveir baneitraðir rötuðu niður og Snæfell komst í 82-84 með 2-9 áhlaupi. Reyndar voru Hólmarar heitir þennan lokasprettinn með 22 stig á Grindavík síðustu fimm mínútur leiksins! Heimamenn létu dæluna ganga af bekknum og uppskáru tæknivíti fyrir vikið og hreinlega misstu „kúlið.“ 

Snæfell komst í 91-96 þegar 43 sekúndur voru eftir en lið eins og Grindavík er alltaf stórhættulegt en heimamenn komust ekki nær en 98-99 sem urðu lokatölur og Hólmarar fögnuðu vel í leikslok. 

Eins og áður segir fékk Wise brottvísun úr húsi eftir leik og því viðbúið að hann fái bann. Kappinn skilaði 31 stigi og 16 fráköstum og Jóhann Árni Ólafsson bætti við 17 stigum, 7 fráköstum og 3 stoðsendingum en það vantaði alla heild í gula í kvöld.

Sherrod Nigel Wright var maður leiksins með 37 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Næstur honum í liði Snæfells var Stefán Karel Torfason með 20 stig og 8 fráköst en Sigurður Þorvaldsson (17 stig/6fráköst) komst vel frá sínu þó hann sé ekki nærri því í 100% ástandi þessi dægrin. Bracy hrökk svo í gang á hárréttum tíma og lauk leik með 12 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar. 

Tölfræði leiksins

Mynd og umfjöllun/ [email protected] 

Fréttir
- Auglýsing -