Það var ekki áferðarfallegur körfubolti sem var boðið upp á í Fjósinu sl. föstudagskvöld þegar enn einn fyrrum Skallagrímsmaðurinn Ari „Valsari“Gunnarsson kom með sína lærisveina úr efra Breiðholtinu, Leikni, í heimsókn.
Leikurinn byrjaði nokkuð jafnt til að byrja með, bæði lið spiluðu þokkalega vörn. Með Birgir fremstan í flokki í stigaskori voru Skallar yfir eftir rúmar 5 mín. 7-5. Eftir þessa jöfnu byrjun settu Skallar í næsta gír í vörninni og Hafþór kom sterkur inn í sóknarleikinn. Skallar stálu hverjum boltanum á fætur öðrum og sóttu vel að Leiknismönnum. Skallar komust í bónus, Birgir nýtti línuna vel og kom Sköllum í 19-9. Leiknir reyndi þó aðeins að klóra í bakkann en Kristján Pétur var ekkert á þeim buxunum að leyfa þeim að komast inn í leikinn heldur setti í einn góðan þrist úr horninu alveg í blálokinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta 24-12 Sköllum í vil.
Eftri smá blakæfingu hjá Sowa og Kristjáni náði sá fyrrnefndi að koma boltanum ofaní fyrir Skalla í byrjun annars leikhluta. Við það gengu Skallar svo á lagið. Keyrðu jafnt og þétt á Leiknismenn og voru fljótt komnir í 30-12. Ekki var Ari Gunn sáttur að horfa upp á það hjá sínum lærisveinum og tók leikhlé. Við það misstu Skallar eitthvað einbeitinguna og Leiknismenn gengu á lagið. Náðu að minnka muninn smátt og smátt. Þá kom Hafþór eins og þruma úr heiðskýru lofti og setti einn þrist langt utan af velli. Við það fengu aðrir smá blóðbragð í munninn því Kristján og Finnur Jóns komu strax á eftir með góðar körfur 39-17. Þá kom aftur að þessari einbeitingu. Hún var eitthvað að hrjá Skallana og Leiknismenn nýttu sér það vel á loka sekúndunum og náðu að minnka muninn. Staðan í hálfleik var 42-26.
Þriðji leikhlutinn var ekki mikið fyrir augað. Minnti helst á „old boys“ æfingu þar sem ruddaskapurinn fékk að njóta sín í botn. En inn á milli sáust samt nokkrar flottar leikfléttur hjá báðum liðum. Leiknismenn gengu á lagið og ætluðu sér greinilega að leggja allt í sölurnar í þessum leikhluta. Náðu að minnka muninn í 9 stig, 46-35. Skallar náðu þó að vakna aðeins til lífsins. Hafþór setti einn góðan þrist og kom Sköllum í 55-40 en Leiknismenn sóttu aðeins á til baka. Staðan eftir þriðja leikhluta 55-43 Sköllum í vil.
Skallar komu einbeittari til leiks í fjórða og síðasta leikhlutanum. Sowa var með góða byrjun fyrir Skalla sóknarlega og Birgir var sterkur eftir mikinn dans inni í teignum, 61-43. Leiknismenn reyndu samt að koma til baka, ákafinn var mikill en hann varð þeim að falli því villunar hrönnuðust upp hjá þeim. Lokamínutan var að mestu haldin á vítalínunni. Lokatölur 78-57.
Stigahæstu menn Skallagríms voru Kristján Andrésson með 19 stig og 6 fráköst- Birgir Þór Sverrisson með 15 stig, 4 stoðsendingar og 7 fráköst- Hafþór Ingi Gunnarsson með 12 stig, 4 stoðsendingar, 4 fráköst og 3 stolna bolta- Mateuz Zowa með 11 stig, 20 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 varin skot.
Hjá Leiknir voru Hallgrímur Tómasson með 13 stig, 11 fráköst og 6 stoðsendingar- Helgi Davíð Ingasson með 12 stig og 6 fráköst.
Umfjöllun: Ebbi