06:30
{mosimage}
Breiðablik vann afar sannfærandi sigur á Haukum í gær í 1. deild karla og er liðið að spila alveg ágætlega í byrjun móts. Liðinu var spáð efsta sæti fyrir tímabilið af spekingum Karfan.is sem og forráðamönnum félaganna og virðast þeir vera að standa undir því. Sævar Sævarsson, leikmaður Breiðabliks, sagði að liðið stefndi á toppinn í deildinni en það væru enn nokkur atriði sem væru ekki að virka.
,,Við ætlum okkur að vera bestir en erum það kannski ekki í dag eins og við erum að spila. Við erum að ströggla í vörninni,” sagði Sævar og bætti við að það væru margir nýjir leikmenn í liðinu og menn væru enn að finna sín hlutverk.
Aðspurður um leikinn í gær sagði hann að liðið hafi misst damp eftir góða byrjun og erfitt hafi verið að halda einbeitingu í leiknum en Blikar misstu niður mikið forskot jafn fljótt og þeir náðu því. ,,Með allri virðingu fyrir Haukum þá gerist það stundum að þegar maður spilar gegn slakari liðum þá ætlar maður sér of geyst þegar munurinn er kominn í 20-30 stig. Maður ætlar að stela 20 boltum í sömu vörninni í staðinn fyrir að spila eins og við gerðum til að byrja með en þá spiluðum við mjög vel. Þetta er oft erfitt þegar munurinn kemur fljótt þá er stundum erfitt að halda dampi. Á móti öðrum liðum hefðum við lent í bölvuðu basil,” sagði Sævar og hélt áfram. ,,En Haukarnir voru að hitta úr góðum skotum og Siggi [Einarsson] var að spila mjög vel fyrir Hauka.”
mynd: Gunnhildur Erna Theodórsdóttir