Rúnar Birgir Gíslason mun fara sem eftirlitsmaður á leiki lokamóts EuroBasket nú í haust samkvæmt tilkynningu KKÍ.
Rúnar Birgir hefur verið eftirlitsmaður hjá FIBA síðustu átta ár, en hann er aðeins einn af átta úr hópi hundrað og þrjátíu eftirlitsmanna sem raðað er á leiki lokamótsins. Þetta mun vera í annað skiptið sem íslenskur starfsmaður hefur farið á lokamót, en árið 2015 dæmdi Sigmundur Már Herbertsson á lokamóti EuroBasket.
Rúnar Birgir mun ekki geta fylgt íslenska liðinu í riðil þeirra sem leikinn er í Póllandi, en það á eftir að koma í ljós hvar hann verður, í Lettlandi, á Kýpur eða í Finnlandi.
Tilkynning:
Þau ánægjulegu tíðindi bárust KKÍ nú fyrir skömmu að Rúnari Birgi Gíslasyni hefur verið raðað sem eftirlitsmanni á EuroBasket karla í haust. Það verða því ekki bara strákarnir okkar sem taka þátt í mótinu fyrir Íslands hönd í Póllandi heldur verður okkar fulltrúi í einu hinna landanna sem eru gestgjafar í mótinu.
Þetta er mikil viðurkenning á störf Rúnars sem eftirlitsmanns hjá FIBA en hann hefur verið í því hlutverki í 8 ár. Einungis 8 eftirlitsmönnum er raðað á EuroBasket karla en í heildina eru 130 eftirlitsmenn að störfum hjá FIBA Europe. Þess má geta að aðeins einu sinni áður hefur íslenskur dómari eða eftirlitsmaður verið tilnefndur á EuroBasket karla en Sigmundur Már Herbertsson fór sem dómari á vegum Íslands árið 2015. Eftir það mót dróg FIBA úr því að dómarar tilheyrðu keppnisþjóðunum en nú raðar FIBA einungis dómurum úr Elite grúppu sinni á mótið sem koma úr öllum heimsálfum ekki einungis Evrópu.
Það mun svo koma í ljós seinna í sumar til hvaða lands Rúnar fer en riðlarnir sem Ísland er ekki í verða leiknir á Kýpur, í Lettlandi og í Finnlandi.
KKÍ óskar Rúnari innilega til hamingju með tilnefninguna og óskar honum góðs gengis í sínum störfum.