Í ágúst var greint frá því að Keflvíkingar hefðu landað leikmanni að nafni Titus Rubles sem skila átti miðherjahlutverkinu hjá félaginu í vetur. Erfiðlega gekk að fá pappíra kappans til landsins en þegar þeir loks komu á dögunum varð ljóst að Rubles kæmi ekki til landsins þar sem hann er á sakaskrá ytra.
„Það tók langan tíma að fá pappírana svo við þurftum að draga okkur út úr þessu og leita á önnur mið,“ sagði Sævar Sævarsson varaformaður KKD Keflavíkur í samtali við Karfan.is. Keflvíkingar vonast til þess að fá nýjan mann í stað Rubles sem allra fyrst og stendur yfir vinna í þessum málum.
Grindvíkingar lentu í ekki ósvipuðum málum í fyrra og það mál gekk svo langt að leikmaðurinn kom alla leið til Íslands í fýluferð. „Við auðvitað sendum Jóni Gauta og Grindvíkingum pappírana hans Rubles og spurðum hvort þeir hefðu ekki áhuga,“ sagði Sævar kíminn.
Mynd/ Til stóð að Rubles kæmi til Keflavíkur en af því verður ekki.