Stjórn Körfuknattleikssambands Íslands, KKÍ, hefur gert breytingar á reglum varðandi erlenda leikmenn fyrir næsta tímabil.
Á síðasta körfuknattleiksþingi KKÍ var stjórninni gert að finna útfærslu á reglum um erlenda leikmenn. Á stjórnarfundi á laugardaginn ákváðu þau hvernig þeirri útfærslu yrði háttað.
Breytingin á reglum um erlenda leikmenn verður með þeim hætti að það mega vera fjórir erlendir leikmenn á leikskýrslu. Þeir mega allir vera inn á vellinum á sama tíma.
Það má einn af þessum fjóru erlendu leikmönnum vera utan Bosman A og B skilgreiningarinnar (stundum kallað Kana-ígildi), hinir þrír mega vera hvaða blanda af Bosman A- eða B sem lið vilja.
Bosman A leikmenn eru innan EES-svæðisins á meðan að Bosman B leikmenn eru evrópskir en utan EES-svæðisins, t.d. Serbar. Algengast hefur verið að þegar lið taka leikmenn utan þessara leikmannahópa (Bosman A og B) þá verða yfirleitt bandarískir leikmenn fyrir valinu.
Þessar breytingar munu taka gildi strax á næsta tímabili.