spot_img
HomeFréttirNBA deildin byrjar í kvöld

NBA deildin byrjar í kvöld

Í kvöld er biðin á enda fyrir okkur NBA sjúklingana. Bið sem hefur varað frá því flautan gall 15. júní í 17 stiga sigri Spurs á Heat í fimmta leik liðanna í úrslitunum. Það er þó ekki þar með sagt að ekkert hafi gerst síðan. Síður en svo.
 
Það fór lítið fyrir vonbrigðum LeBron James eftir leikinn gegn Spurs. Auðmjúkur viðurkenndi hann að betra liðið hafi unnið og að hann hafi ekki getað togað sína menn yfir markið. Undir sauð hins vegar pirringur. Pirringur út í stjórnendur félagsins sem höfðu tekið ýmsar ákvarðanir til sparnaðar á síðastu leiktíð sem veiktu Heat liðið til muna. Sparnaður eigenda og stjórnenda Heat ofan á ellikerlingu sem elti Dwyane Wade varð að mörgu leyti til þess að NBA meistaratitillinn fór ekki til Suðurstrandar í sumar.
 
LeBron var ekki eins pirraður og þegar hann gekk af velli í Boston 2010 þegar Cavaliers voru slegnir út af öldnum Celtics leikmönnum (sem enduðu með að fara í úrslitin). Þá rauk LeBron út af vellinum, reif af sér Cavs treyjuna og það næsta sem við vitum er að hann er í beinni útsendingu að tilkynna brottflutning sinn til Miami.
 
Það var töluvert þroskaðri LeBron sem tók á málunum í sumar. Bjó til smá spennu með viðræðum við önnur lið en eftir á að hyggja var augljóst hvert hann ætlaði og allt annað var aðeins fyrirsláttur.
 
Ákvörðunin var svo birt í látlausri tilkynningu á vefsvæði Sports Illustrated.
 
Æðsti draumur þessa langbesta körfuboltaleikmanns heimsins er að skila titli til Cleveland, sem staðsett er örskammt frá heimabæ LeBron, Akron í Ohio-fylki.
 
Allt gas sem mögulega gat fundist hefur verið sett í að gera þann draum að veruleika. Nýr þjálfari, David Blatt sem þjálfað hefur í Evrópu var fenginn yfir. Mjög virtur þjálfari en hefur aldrei áður tekist á við þjálfun á NBA liði. Félagið skipti frá sér efnilegum nýliðum til Minnesota til að fá Kevin Love, auk þess sem gamlar kempur hvaðanæva úr deildinni hafa boðið fram starfskrafta sína.
 
Úr varð virkilega sterkt lið sem er til alls líklegt í úrslitakeppninni nk. vor. Spurs eru enn taldir líklegastir til að landa titlinum annað árið í röð en öllum að óvörum hafa liðin í austri styrkst umtalsvert á nýliðnu sumri.
 
Auk Cavaliers hafa Bulls bætt töluvert við sig. Allt í einu komnir með þriggja stiga skyttur út um allt auk þess sem Rose virðist vera orðinn heill aftur. Bulls fengu til sín Pau Gasol sem mun vera í mun meira hlutverki hjá Bulls en hann hefur verið hjá Lakers. Haldist allir heilir verða Bulls erfiðir við að ráða í ár.
 
Washington Wizards slógu út Bulls í sumar og mjög líklegt að þeir verði aftur í sviðsljósinu næsta sumar. Bættu við sig reynsluboltanum Paul Pierce og tryggðu sér áframhaldandi þjónustu Marcin Gortat.
 
Indiana Pacers urðu fyrir því óláni að Paul George fótbraut sig illa á landsliðsæfingum í sumar og er ekki gert ráð fyrir því að hann verði neitt með á þessari leiktíð. Þeir misstu Lance Stephenson til Charlotte svo það mun sitja á herðum David West og Roy Hibbert að koma liðinu áfram í vetur. Ekki er við miklum afrekum að búast þaðan á þessari leiktíð.
 
Í vestrinu verður meiri samkeppni eins og venjulega. Það má búast við því að öll Texas liðin verði hættuleg á þessari leiktíð. Dallas hafa farið í miklar mannabreytingar en þjálfarinn þeirra er einfaldlega það fær að hann á eftir að gera gott úr því.
 
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Oklahoma á eftir að spila á meðan Kevin Durant er meiddur næstu 2-3 mánuðina. Takist Russell Westbrook að stýra skútunni á rétta leið verða þeir stórhættulegir sem fyrr á komandi leiktíð.
 
Það verður líka gaman að fylgjast með minni liðunum. T.d. Charlotte sem núna heita Hornets og hafa tekið upp liti gamla Hornets liðsins sem spilaði í Charlotte frá 1988 til  2002. Það verður forvitnilegt að sjá Miami Heat liðið bregðast við breytingum sumarsins. Hvernig Knicks gengur að innleiða þríhyrningsspilið og hvernig Carmelo Anthony mun ganga að takast á við breytt hlutverk í liðinu.
 
Dýpsta nýliðaval NBA deildarinnar í langan tíma var haldið í sumar. Cavaliers fengu fyrsta valrétt og tóku Andrew Wiggins sem þeir svo sendu til Minnesota í skiptum fyrir Love. Wolves hafa tekið miklum stakkaskiptum og verður spennandi að sjá hvort við fáum einhverjar háloftasýningar þaðan. Einnig er vert að benda á Jabari Parker, nýliða Milwaukee Bucks, en jafn reiðubúinn nýliði fyrir NBA deildina hefur ekki sést í langan tíma.
 
Ákveðin tímamót urðu einnig í sumar þegar David Stern lét af embætti forseta NBA deildarinnar eftir 30 ára starf. Hann hafði verið svo lengi í embætti að síðast forseti deildarinnar á undan honum var sjálfur Larry O’Brien sem verðlaunagripur deildarinnar er nefndur eftir. Við Stern tók Adam Silver sem hefur staðið sig afburðavel í starfi síðan. Tók fast á kynþáttafordómahneiksli Donald Sterling, eiganda LA Clippers og tókst að losa deildina við hann, eitthvað sem David Stern tókst aldrei. Honum hefur einnig tekist að vekja mjög mikla og jákvæða athygli á deildinni t.d. með því að velja Isaiah Austin fyrir hönd NBA í nýliðavalinu en Austin greindist með sjúkdóm sem endaði ferilinn hans rétt fyrir nýliðavalið. Stuttu síðar réð hann Austin til starfa hjá deildinni.
 
Það eru bjartir tímar framundan í NBA deildinni. Nú geta allir horft á NBA deildina beint eða daginn eftir með hjálp NBA League Pass áskriftarinnar sem er alltaf ókeypis fyrstu vikuna eftir að deildin hefst. Eitthvað sem alvöru NBA-hausar mega ekki missa af.
 
Undirritaður er ekki mikið fyrir að spá en ætlar samt sem áður að ríða á vaðið og henda inn einni slíkri fyrir veturinn.
 
San Antonio Spurs verða meistarar. Eins og staðan er í dag í deildinni er fátt að fara að breyta því nema Cavs eða Bulls slíti af sér öll bönd og takist að ógna ríkjandi meisturum.
 
LeBron James, Cleveland Cavaliers verður valinn besti leikmaður deildarinnar.
 
Jabari Parker, Milwaukee Bucks verður valinn nýliði ársins.
 
Þjálfari ársins verður Steve Clifford, Charlotte Hornets.
 
Framkvæmdastjóri ársins verður Ernie Grunfeld, Washington Wizards.
 
Anthony Davis, New Orleans Pelicans verður varnarmaður ársins.
 
Síðast en ekki síst verður Taj Gibson, Chicago Bulls besti sjötti maður deildarinnar.
 
 
Fréttir
- Auglýsing -