spot_img
HomeFréttirNaumt tap KFÍ gegn FSu

Naumt tap KFÍ gegn FSu

Strákarnir í KFÍ töpuðu naumt í sínum fyrsta heimaleik gegn FSu á föstudagskvöldið 71-72. Leikurinn fór seint í gang og á fyrstu fimm mínútunum voru aðeins skoruð níu stig í heildina. Það var því sannakallaður haustbragur á spilamennsku beggja liða í upphafi leiks en þegar á leið lifnaði yfir honum og endaði með mikilli spennu í lokinn.
 
Þegar fyrsti leikhlutinn var úti höfðu gestirnir sigið fram úr og skapað sér 7 stiga forskot. Þessi munur hélst nokkurnveginn allan fyrri hálfleikinn og stóðu leikar 27-37 gestunum í vil í lok hans. Í upphafi seinni hálfleiks gerði KFÍ kröftugt áhlaup og greinilegt að hvatningarræða þjálfarans í hálfleik skilaði sér því menn byrjuðu strax af ákveðni frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks. KFÍ jafnaði leikinn í 37-37 á fyrstu tveimur mínútunum. Þar munaði mestu um góða svæðisvörn sem sneri leiknum við ásamt góðum spretti hjá Birgi Birni og Pance Ilievski sem setti tvær 3. stiga körfur með stuttu millibili. Þegar leið á leikhlutann sigu gestirnir aftur fram úr en KFÍ komst inn í leikinn á ný undir lokinn með góðum spretti og leiddi með tveimur stigum 57-55 þegar leikhlutanum lauk. Okkar menn léku vel lengst af í síðasta fjórðungnum og bættu í forystuna og náðu mest 8 stiga forskoti á 37. mínútu. Síðustu 4 mínútururnar vantaði áræðni í sóknarleikinn sem endaði með því að gestirnir komust aftur inn í leikinn og tókst að lokum að knýja fram sigur með körfu frá Collin Anthony Pryor þegar aðeins 10 sekúndur voru eftir. Því miður rann síðasta sókn KFÍ út í sandinn og úrslitin því 71-72, gestunum í vil, þegar flautað var til leiksloka.
 
Segja má að strákarnir hafi mætt fimm mínútum of seint til leiks því á fyrstu fimm mínútunum náði liðið aðeins að skora tvö stig. Auk þess var varnarleikurinn slappur allan fyrsta fjórðunginn sem sést kannski best á því að liðið fékk aðeins á sig eina villu. Þótt strákarnir hafi verið seinir í gang voru ýmsir ljósir punktar í seinni hálfleik og greinilegt að í liðinu býr baráttuandi sem mun skila sigrum í vetur. Heilt yfir var leikurinn hin besta skemmtum og gefur góð fyrirheit fyrir veturinn.
 
Pance Ilievski var stigahæstur heimamanna með 20 stig, Kjartan Helgi og Nebosja gerðu 16 stig hvor og Birgir Björn 14 auk þess að taka 11 fráköst.
 
Hjá gestunum leiddi Collin Anthony Pryor stigaskorið með 27 stig og 18 fráköst en næstir komu Svavar Ingi Stefánsson með 12 stig og Ari Gylfason með 10.
 
Umfjöllun og mynd: KFÍ.is
 
Fréttir
- Auglýsing -