Það voru heldur betur grimmar og ákveðnar KR konur sem mættu til leiks í Keflvíkina í kvöld og höfðu með sér sigur. 77-78 var lokastaða leiksins eftir æsispennandi loka sekúndur þar sem að Keflvíkingar hefðu getað sigrað en síðasta skot TaKesha Watson geigaði og því fögnuðu KR í leikslok og hafa þar með tekið 1-0 forystu í einvíginu.
Leikurinn hófst með látum og voru bæði lið að skora nokkuð auðveldlega og varnarleikurinn var ekki á hávegum hafður. Fyrri hálfleikur einkenndist af því að liðin skiptust á forystunni. Fyrir KR liðinu fóru Hildur Sigurðardóttir og Kara Sturludóttir sem báðar voru komnar með 14 stig í hálfleik en hjá Keflavík var stigaskorið nokkuð dreifðara.
Seinni hálfleik hóf heimaliðið betur og voru á tíma komnar með 8 stiga forystu í leiknum. En þá virtust þær slaka aftur á klónni og KR stúlkur létu ekki segja sér það tvisvar heldur nýttu sér klaufalegan sóknarleik og slakan varnarleik heimamanna og komust 2 stigum yfir fyrsta síðasta fjórðung. Þarna fór fremst í flokki Hildur Sigurðardóttir en þrátt fyrir að klikka á 6 vítaskotum í röð á þessum tíma náði hún að koma liði sínu yfir í leiknum.
Í síðasta fjórðung kom í ljós hvort liðið var hungraðara í sigur í leiknum. KR stúlkur börðust eins og ljón allan tímann og allir lausir boltar voru þeirra. Keflavík voru á meðan gríðarlega kærulausar í sókninni og auðveldar skottilraunir þeirra undir körfunni vildu einfaldlega ekki ofaní. Þegar um 24 sekúndur voru eftir komust Keflavík yfir með einu stigi. KR liðið fór í sókn og spilaði boltanum vel á milli sín þangað til að vörn heimamanna gersamlega sofnaði og rétt fyrir framan vítalínuna stóð Helga Einarsdóttir galopin og setti niður stökkskot af mikilli yfirvegun. Á þeim 5 sekúndum sem lifðu náðu Keflavík að taka mjög erfitt þriggjastiga skot sem geigaði og leiktíminn rann út.
Barátta KR-inga stóð uppúr í þessum leik hjá þeim. Þær slógust allt til endaloka og þrátt fyrir að vera komnar undir á tíma með 8 stigum gáfust þær aldrei upp. Hjá Keflavík var varnarleikur þeirra gersamlega í molum og leikmenn alltaf á hælunum. Í sókninni voru þær einnig kærulausar með boltann og voru sóknartilburðir þeirra á tímum gríðarlega tilviljanakenndur og mikið um hnoð. Allan kraft vantaði í lykilleikmenn þeirra og á tímum stóðu þær og biðu einfaldlega eftir að Kesha Watson myndi klára sóknir þeirra.
Næsti leikur þessara liða verður í DHL höllinni á föstudaginn kemur.