Karfan.is náði tali af Martin Hermannssyni nú fyrir stuttu þegar ljóst var hvert íslenska landsliðið myndi halda til þátttöku í Eurobasket 2015. Hann var himinnlifandi yfir niðurstöðu gærkvöldsins.
“Þessi riðill er bara eitthvað allt annað. Þetta er einmitt það sem ég vonaðist eftir,” sagði Martin. “Fyrst við erum að fara þangað á annað borð, er ekki bara best að gera þetta almennilega?”
Martin segir að allir þessir leikir verði rosaleg upplifun. “Spánverjar eru með NBA leikmenn í hverri stöðu og fleiri á bekknum, svo ætli það verði ekki mesta áskorunin.”
Martin sagðist hafa talað við Jack Perri, þjálfara LIU háskólans strax og riðlarnir voru klárir, en háskólaboltinn verður á fullu í undirbúningi fyrir næstu leiktíð þegar Evrópukeppnin stendur yfir. “Hann sagði bara ‘We will make it work’.”
“Hann er að pæla í að gera sér ferð til Berlínar á næsta ári,” bætti Martin við.