Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson munu leiða LIU til sóknar gegn St. Joseph’s University í Philadelphia-borg í kvöld. Fyrir yfirstandandi leiktíð voru LIU settir í 125. sæti en St. Joseph’s í 206. sæti. Það er samt engin ástæða til að fara kærulaus í þennan leik því Haukarnir frá SJU eiga langa sögu og farsælan feril í A10 riðlinum. Unnu t.d. riðilinn á síðustu leiktíð og voru slegnir út í annarri umferð í March Madness sl. vor.
Nokkrir NBA leikmenn hafa komið þaðan en helst ber að nefna Jameer Nelson sem spilar nú með Dallas Mavericks og einnig Delonte West sem nú er týndur og tröllum gefinn.
Karfan.is náði tali af Elvari fyrir leikinn sem var að vonum spenntur fyrir kvöldinu.
“Virkilega spenntir fyrir kvöldinu. Annað sterkt lið sem við mætum og hlökkum við mikið til.” Elvar býst við að þeir félagar muni koma öruggari inn í þennan leik og líða betur inni á vellinum, “þar sem við höfum fengið að sjá hvernig þetta er og vitum hvað við erum að fara út í.”
LIU vonast til að geta sótt sinn fyrsta sigur til Philadelphia eftir tapið gegn St. John’s í síðustu viku. St. Joseph’s hins vegar hafa spilað fjóra leiki og unnið tvo og tapað tveim. LIU og St. Joseph’s mættust síðast á leiktíðinni 1979-1980.
St. Joseph’s eru í miðjum 6 leikja spretti á 13 dögum og því von að þeir verði eitthvað þreyttir þegar þeir taka á móti okkar mönnum.
Leikurinn hefst á miðnætti í kvöld og verður hægt að sjá hann eða hlusta á lýsingu frá honum í gegnum leiðir sem SJU býður upp á. Leikurinn verður ekki sýndur á ESPN líkt og sá fyrsti gegn St. John’s.
Mynd: Elvar Már á vítalínunni í fyrsta leik sínum í háskólaboltanum. (Bob Dea)