Annar keppnisdagur 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins stendur nú yfir. Fyrsta leik dagsins er lokið þar sem Litháen komst í 8-liða úrslit með 76-71 sigri gegn Nýsjálendingum sem fyrir vikið halda heim á leið. Það verður vissulega eftirsjá í því að fá ekki fleiri „Haka“-dansa frá Nýsjálendingum þetta mótið en þessi stríðsdans Nýsjálendinga vekur jafnan mikla athygli í alþjóðlegum keppnum.
Jonas Valanciunas var atkvæðamestur í liði Litháen áðan með 22 stig og 13 fráköst en kappinn leikur með Toronto Raptors í NBA deildinni. Corey Webster gerði svo 26 stig og tók 4 fráköst í liði Nýsjálendinga. Litháen mætir svo sigurvegaranum úr viðureign Tyrklands og Ástralíu í 8-liða úrslitum.
Þegar þetta er ritað stendur yfir viðureign Serba og Grikkja og leiða Serbar 46-42 í hálfleik.
Seinni tveir leikir dagsins eru svo Tyrkland-Ástralía og svo Brasilía-Argentína.