Pavel Ermolinskij tognaði á ökkla á æfingu fyrir fyrsta leik í Dominosdeildinni og hefur verið frá síðan. KR hefur sigrað alla sína leiki í vetur – suma mjög sannfærandi og aðra með mikilli fyrirhöfn. Þeir síðarnefndu aðallega eftir að Pavel meiddist.
Með fullri virðingu fyrir þeim liðum sem KR hefur leikið gegn í vetur þá vekur það furðu þegar lið sem útbúið er eins og Vesturbæingar eru, þegar þeir þurfa framlengingu til að sigra nýliða Tindastóls á eigin heimavelli.
KR hefur spilað 8 leiki í vetur, að undaskildum meistara meistaranna. 5 í Lengjubikarnum og 3 í deildinni. Pavel spilaði 3 af leikjunum í Lengjubikarnum. Skulum skoða tölfræði liðsins með og án Pavels.
.png)
Fljótt á litið er þessi tölfræði sú sama og útlit fyrir að fjarvera Pavels valdi engum vandræðum fyrir KR. Þeir skjóta fleiri þrista og hitta úr fleirum. Skotnýting liðsins er mun betri. Þar vega þungt fyrri leikurinn gegn ÍR þar sem KR skaut 14/20 í þristum, 11/30 leikur gegn Snæfelli og 10/25 leikur gegn Tindastól núna síðast. Þeir skora jafn mikið per sókn en þeir spila fleiri sóknir og nýta þær ekki eins vel. Það sem hins vegar miklu máli skiptir er að KR-ingar taka mun færri fráköst, sem ætti ekki að vekja furðu hjá neinum því Pavel er einn af betri frákösturum deildarinnar. KR-ingar tapa einnig allt of mikið af boltum en 1,7 boltum meira í þeim leikjum sem Pavel er ekki með.
Það sem hægt er að lesa úr þessu er að Pavel stýrir leik KR gríðarlega vel. Þau eru ekki mörg liðin sem búa við það að leikstjórnandinn þeirra taki flest fráköstin og bruni upp með boltann. Hann sér völlinn mun betur í sókn en fleiri bakverðir vegna hæðarmunar gagnvart öðrum bakvörðum.
Skoðum svo tölfræði KR liðsins í fyrstu 3 leikjum síðustu leiktíðar Dominosdeildarinnar.
Hér höfum við færri tapaða bolta, betri sóknarnýtingu, fleiri stig per sókn og svo lengi má telja. Þetta sýnir ekki aðeins hversu mikilvægur Pavel Ermolinskij er KR liðinu heldur einnig hve stór skarð var hoggið í KR liðið við það að Martin Hermannsson ákvað að halda út til Bandaríkjanna í sumar.
Deildin er hins vegar rétt að byrja og KR liðið er að gela sig saman líkt og öll hin liðin í deildinni. Samkvæmt heimildum Karfan.is er ekki ólíklegt að Pavel spili með KR-ingum í kvöld þegar þeir taka slaginn við Keflvíkinga sem eru til alls líklegir í TM-höllinni.