11:48
{mosimage}
Karfan.is náði á þá félaga Einar Árna Jóhannsson og Benedikt Guðmundsson, þjálfara KR og Njarðvíkur sem leika sinn fyrsta úrslitaleik í Iceland Express deildinni í kvöld. Njarðvíkingar hafa heimavallarréttinn og því fer fyrsti leikurinn fram í Ljónagryfjunni. Karfan tók stutt leikhlé með þjálfurunum og lagði fyrir þá nokkrar laufléttar.
Benedikt Guðmundsson
Njarðvíkingar hafa heimavallarréttinn. Að hve miklu leyti telur þú að sá réttur skipti máli í þessu úrslitaeinvígi?
Heimavallarrétturinn hefur mikið að segja á þessu stigi keppninnar. Njarðvík er búið að vinna sér það inn í vetur og rúmlega það að vera í þessari stöðu. Man ekki hvenær Njarðvík tapaði síðast á heimavelli en það er alveg ljóst að við þurfum að vinna 1-2 leiki í Ljónagryfjunni.
Liðin eru áþekk í teignum, verður það bakvarðabaráttan sem gæti haft úrslitaáhrif í einvíginu?
Bæði lið eru sterk inni í teig og bæði lið hafa sterka bakvarðasveit líka. Fyrir okkur er það lykilatriði að Tyson Patterson nái að beita sér að mestum hluta og fari fyrir sóknarleiknum.
Að hvaða leiti eru liðin lík í boltanum og hvernig eru þau ólík?
Bæði lið eiga það sameiginlegt að vera nokkuð heilsteypt og spila öflugan varnarleik.
Hver finnst þér vera mesti styrkleiki andstæðinganna?
Njarðvík er gríðarlega massívt lið með fáa veikleika. Þeir eru sterkir í öllum stöðum, bæði í vörn og sókn. Þeir hafa leikmenn sem geta tekið yfir og klárað leiki í lokin. Þeir eru vel skipulagðir og hafa mikla sigurhefð.
Hver er helsti styrkleiki þinna manna?
Við erum með góða breidd sem á vonandi eftir að nýtast okkur vel í þessari seríu.
Hvernig ætlar þú að verja þessum degi fyrir leik?
Við borðum saman í hádeginu og tökum liðsfund í kjölfarið. Síðan slöppum við af fram að leik með okkar nánustu og komum vel einbeittir til leiks með það í huga að stela fyrsta leik í Ljónagryfjunni.
{mosimage}
Einar Árni Jóhannsson
Njarðvíkingar hafa heimavallarréttinn. Að hve miklu leyti telur þú að sá réttur skipti
máli í þessu úrslitaeinvígi?
Við höfum verið sigursælir heima síðustu tvö ár og höfum mikla trú á okkur almennt en þó hvergi meiri en á okkar heimavelli. Deildarmeistaratitillinn gaf okkur það að heimasigrar út úrslitakeppni færi okkur titilinn. En við ætlum okkur svosem að vinna í DHL höllinni og KR-ingar stefna vafalítið á að vinna í Ljónagryfjunni svo við skulum bara sjá hvað setur.
Liðin eru áþekk í teignum, verður það bakvarðabaráttan sem gæti haft úrslitaáhrif í einvíginu?
Styrkur beggja liða liggur í því að margir leikmenn eru að leggja í púkkið. Ég held að öflug liðsheild færi félagi Íslandsmeistaratitilinn í ár rétt eins og síðasta ár.
Að hvaða leiti eru liðin lík í boltanum og hvernig eru þau ólík?
Liðin hafa bæði fína breidd og gott jafnvægi í sínum leik. Stóru strákarnir eru að skora vel sem og bakverðir. Varnarleikurinn hefur verið öflugt vopn hjá báðum liðum. Ólíku hlutirnir eru til staðar en ég ætla að láta þá liggja á milli hluta að sinni.
Hver finnst þér vera mesti styrkleiki andstæðinganna?
Þeir hafa mörg vopn sóknarlega og virkilega gott jafnvægi í sínum leik. Þrífast vel í hröðum leik sem að Benedikt vill að þeir leiki.
Hver er helsti styrkleiki þinna manna?
Við þekkjum hvorn annan vel, hópurinn lítið breyttur frá síðasta ári og við erum því að byggja mikið ofan á síðasta vetur. Helsti styrkleiki okkar myndi ég segja að væri varnarleikurinn þegar við dettum í gírinn, sbr leikur 5 gegn Grindavík.
Hvernig ætlar þú að verja þessum degi fyrir leik?
Liðið hittist í hádegismat klukkan 13:00 en milli 15 og 19 eru menn bara heima og slaka á, og sjálfur kem ég eflaust til með að grípa í bók eins og ég geri oft á leikdegi í úrslitakeppni. Við hittumst svo aftur upp í íþróttahúsi rétt fyrir klukkan 19 og gerum okkur klára í slaginn.
Njarðvík-KR
Leikur 1
Ljónagryfjan í Njarðvík
20:00
Bein textalýsing á karfan.is
Bein útsending hjá SÝN