07:31:57
Stórveldin LA Lakers og Boston Celtics voru ekki jafn farsæl í nótt þar sem Lakers vann Houston Rockets, 94-108, en Boston tapaði fyrir Orlando Magic, 117-96. Lakers og Orlando leiða í einvígjunum, bæði 2-1.
Orlando Magic söknuðu aðalleikstjórnanda síns, Rafer Alston sem var dæmdur í eins leiks bann fyrir að slá til Eddie House í síðasta leik liðanna. Það kom hins vegar ekki að sök því Dwight Howard var mættur af fullum krafti á heimavelli og lokaði fyrir allar tilraunir Boston-manna til að komast upp að körfunni. Hann varði fjögur skot í fyrri hálfleik og neyddi gestina til að skjóta lengra utan af velli. Á meðan var Howard síógnandi í sókninni og losaði þannig um hinar fjölmörgu skyttur sem eru með honum í liði.
Þrátt fyrir að Paul Pierce ætti sinn besta leik síðan í leikjunum við Chicago Bulls, var það ekki nóg því Rajon Rondo fékk ekki að keyra eins mikið upp að körfunni og Ray Allen átti herfilegan leik. Magic náðu 20 stiga forskoti áður en Boston söxuðu það niður í sjö stig, en Magic áttu síðasta orðið or unnu loks stórsigur.
Hjá Magic var Rashard Lewis stigahæstur með 28 stig, Hedo Turkoglu var með 24, Howard var með 17 stig, 14 fráköst og 5 varin skot og hinn gamalreyndi Anthony Johnson, sem leisti Rafer Alston af, var með 13 stig.
Í liði meistara Celtics var Pierce stigahæstur með 27 stig, Rondo og House voru með 15 og Kendrick Perkins var með 10.
Lakers voru einnig fáliðaðir þar sem Derek Fisher var í banni fyrir að hrinda Louis Scola í síðasta leik, en stigu vel upp og lönduðu útisigri.
Kobe Bryant byrjaði leikinn af krafti og Lakers voru lengst af með forskotið í fyrri hálfleik. Þeir tóku svo endanlega stjórnina í þriðja leikhluta sem Kobe lauk með langskoti beint í andlitið á Ron Artest og breytti stöðunni í 74-62.
Í fjórða leikhluta minnkuðu Rockets muninn niður í sex stig, 84-90, með troðslu frá Yao Ming þegar fjórar mínútur voru til leiksloka, en Lakers gerðu þá endanlega út um leikinn með góðri rispu.
Óeinbeittur sóknarleikur varð banabiti Rockets en fkjölmargir tapaðir boltar urðu að mörgum auðveldum stigum fyrir Lakers.
Kobe var í banastuði fyrir Lakers og gerði 33 stig, Lamar Odom var með 16 stig og 15 fráköst, Pau Gasol og Trevor Ariza voru með 13 og Jordan Farmar var með 12 stig og 7 stoðsendingar í fjarveru Fishers.