spot_img
HomeFréttirKryptonítið svæðisvörn: Enn hefur KR betur gegn Grindavík í bikarnum

Kryptonítið svæðisvörn: Enn hefur KR betur gegn Grindavík í bikarnum

Annað súrt epli úr ávaxakörfu KR-inga endað í munni Grindvíkinga í kvöld, í fyrra í sjálfum bikarúrslitaleiknum en í ár létu röndóttir sér nægja að henda Grindavík út úr keppninni í 16-liða úrslitum. Um hörku leik var að ræða í DHL-Höllinni þar sem KR reyndist sterkari aðilinn á lokasprettinum og unnu verðskuldað 81-76. Þriggjastigaæði Grindavíkur kom þeim í koll og svæðisvörn KR gekk fyrir vikið fullkomnlega upp því Grindavík tók jafnmörg teigskot og þriggja stiga skot eða 38 talsins! Joshua Brown var að öðrum ólöstuðum besti maður vallarins með 27 stig, 8 fráköst og 7 stoðsendingar og hefur smellpassað inn í lið KR í fyrstu tveimur leikjum sínum fyrir félagið.
KR er því í pottinum á morgun þegar dregið verður í 8-liða úrslit keppninnar en þar verða þeir í potti með Njarðvík, Keflavík, Snæfell, Tindastól, KFÍ, Hamri og Fjölni.
 
Jóhann Árni Ólafsson gerði fimm fyrstu stig Grindavíkur í leiknum og gulir leiddu síðan 2-8 eftir þrist frá J´Nathan Bullock. Joshua Brown var þá ekki til setunnar boðið og minnkaði muninn í 7-8 en hann gerði sjö fyrstu stig KR-inga í leiknum.
 
Sigurður Gunnar Þorsteinsson kom gestunum frá Grindavík í gírinn þegar hann komst inn í sendingu hjá KR, brunaði upp völlinn og tróð með tilþrifum. Ísafjarðartröllið fékk villu að auki og þakkaði fyrir sig með því að setja niður vítið. Ekki ósennilegt að hér hafi verið um persónulegt met að ræða í spretthlaupi hjá kappanum sem tætti upp parketið.
 
Þorleifur Ólafsson kom svo svellkaldur af Grindavíkurbekknum og breytti stöðunni í 11-19 með þriggja stiga körfu og Watson bætti um betur er hann kom gulum í 11-21 en þá tók Hrafn Kristjánsson leikhé fyrir KR-inga. Út úr leikhléinu komu röndóttir með svæðisvörn sem þessi dægrin er kryptonít þeirra Grindvíkinga og KR kláraði leikhlutann 10-2 og staðan 21-23 að leikhlutanum loknum.
 
Íslensku leikmenn KR höfðu sig ekkert í frammi í fyrsta leikhluta, þeir Brown, Ferguson og Sencanski sáu um stigaskorið á meðan sex leikmenn Grindavíkur höfðu komið sér á blað á fyrstu tíu mínútunum.
 
Martin Hermannsson jafnaði metin í 23-23 í upphafi annars leikhluta og varð þar með fyrsti íslenski leikmaður KR á blað í kvöld. Svæðisvörn heimamanna var að leika gula grátt en annar leikhluti var jafn þar sem liðin skiptust á forystunni.
 
Grindvíkingar eiga í töluverðu basli gegn svæðisvörnum andstæðinga sinna, í öðrum leikhluta og á löngum köflum í leiknum voru þeir að sætta sig við þriggja stiga skot og sjaldan gekk þeim að opna svæðisvörn KR upp á gátt. Vissulega sakna þeir Páls Axels Vilbergssonar sem er stórhættulegur gegn svæðisvörnum en það er engin afsökun þegar lið stendur ráðþrota leik eftir leik gegn svæðisvörnum.
 
KR skaust fram úr undir lok annars leikhluta þegar óíþróttamannsleg villa var dæmd á Grindvíkinga. Joshua Brown setti þá niður bæði vítin og var kominn með 17 stig í hálfleik þar sem KR leiddi 45-41. Hjá Grindavík voru þeir Jóhann Árni og Bullcok báðir komnir með 10 stig.
 
Svæðisvörnin var enn við lýði hjá KR í síðari hálfleik, þriðji leikhluti var afar jafn og spennandi en Grindvíkingar áttu fá svör við Joshua Brown sem leiddi KR áfram í leikhlutanum. J´Nathan Bullock fékk kjörið tækifæri til að landa fjögurra stiga sókn, hann setti þrist um leið og KR vörnin braut á honum en hann misnotaði vítið! Við þessu ættu að vera viðurlög, sérstök hegningarlög í lagabálki KKÍ. Bullock breytti þó stöðunni í 58-61 með þriggja stiga körfunni en KR rétti úr kútnum og leiddu 65-63 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Þegar fjórði leikhluti hófst hafði Giordan Watson aðeins sett 1 af 10 þristum sínum í leiknum en gulir voru þó ekkert að kveikja á perunni, þeir þurftu að vera mun grimmari í því að ráðast á svæðisvörnina og sækja að körfunni en skotin dundu þess í stað fyrir utan með misjöfnum árangri.
 
Emil Þór Jóhannsson kom KR í 73-71 eftir gott sóknarfrákast og þá voru rúmar þrjár mínútur til leiksloka. Síðasti spretturinn var svo í járnum, Grindavík missti Sigurð Þorsteinsson af velli sökum ökklameiðsla og spilaði hann ekki síðustu þrjár mínúturnar.
 
Joshua Brown og Dejan Sencanski splæstu í tilþrif leiksins með ,,alley-up“ troðslu og komu KR í 75-74, stuðningsmenn KR fögnuðu gríðarlega og voru vel með á nótunum eftir þetta.
 
Næsta sókn KR fór forgörðum og Bullock brunaði upp völlinn fyrir Grindvíkinga og reyndi erfitt skot sem vildi ekki niður, KR tók frákastið þegar 30 sekúndur voru eftir og brotið á Brown sem setti niður bæði vítin af öryggi og staðan 77-74 KR í vil þegar hálf mínúta var eftir.
 
Sem fyrr, innihélt næsta Grindavíkursókn þriggja stiga skot, það fyrra varið af Finni Atla og það síðara vildi ekki niður. Í frákastabaráttunni var villa dæmd á Ólaf Ólafsson og Robert Ferguson tölti yfir völlinn til að jarða tvö víti sem og hann gerði, staðan 79-74 þegar 15 sekúndur voru eftir og björninn þar með unninn, lokatölur reyndust 81-76 og KR verðskuldað áfram í 8-liða úrslit.
 
Þeir Ferguson og Brown eru að koma sterkir inn í lið KR og Serbíuleikmaðurinn Sencanski virðist kunna sitthvað fyrir sér þó hann hafi ekki haft sig mikið í frammi í kvöld ef frá er talin skrúfan sem hann losaði um í loftfestingu körfunnar eftir ,,alley-up“ sendingu frá Brown.
 
Grindvíkingar eygja því aðeins von um Íslandsmeistaratitil og mega búast við því að svæðisvörn verði fasti gegn þeim í vetur ef þeir ætla ekki að svara þessu varnarafbrigði betur.
 
Heildarskor leiksins:
 
KR: Joshua Brown 27/8 fráköst/7 stoðsendingar, Robert Lavon Ferguson 15/13 fráköst/3 varin skot, Hreggviður Magnússon 13, Dejan Sencanski 10/6 fráköst, Finnur Atli Magnusson 6, Martin Hermannsson 4, Jón Orri Kristjánsson 4/5 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 2, Björn Kristjánsson 0, Skarphéðinn Freyr Ingason 0, Ólafur Már Ægisson 0, Kristófer Acox 0.
 
Grindavík: J’Nathan Bullock 18/11 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 14/7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 12, Giordan Watson 11/5 fráköst/7 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 9, Ómar Örn Sævarsson 5/6 fráköst, Þorleifur Ólafsson 5, Björn Steinar Brynjólfsson 2, Hinrik Guðbjartsson 0, Einar Ómar Eyjólfsson 0, Ármann Vilbergsson 0, Þorsteinn Finnbogason 0.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Björgvin Rúnarsson, Georg Andersen
 
Punktar:
-Páll Axel Vilbergsson var ekki í búning hjá Grindavík í kvöld. Páll hefur verið að glíma við meiðsli í aftanverðu læri síðan í Lengjubikarnum.
-KR var með 54,5 % nýtingu í teignum og 38,4% þriggja stiga nýtingu í hálfleik.
-Grindavík var með 47,6% nýtingu í teignum og 37,5% þriggja stiga nýtingu í hálfleik.
-KR lauk leik með 54,5% nýtingu í teignum og 33,3% þriggja stiga nýtingu.
-Grindavík lauk leik með 47,3% nýtingu í teignum og 28,9% þriggja stiga nýtingu.
Tweet frá Henry Birgi Gunnarssyni íþróttafréttamanni þegar fjórði leikhluti var nýhafinn í vesturbænum: Þræleðlilegt að það sé bara hægt að skipta nánast um heilt lið á miðju tímabili í körfunni. #marklausttímabil #skilvirkarireglur #glórulaust
 
Byrjunarliðin í kvöld
 
KR: Joshua Brown, Emil Þór Jóhannsson, Dejan Sencanski, Robert Ferguson, Finnur Atli Magnússon.
Grindavík: Giordan Waston, Jóhann Árni Ólafsson, Ólafur Ólafsson, J´Nathan Bullock, Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
 
Mynd/ [email protected] – KR-ingar fögnuðu vel í leiksloka og þjálfarinn Hrafn Kristjánsson lét þar ekki sitt eftir liggja.
 
Umfjöllun/ [email protected]   
Fréttir
- Auglýsing -