spot_img
HomeFréttirKörfuboltadómarar og vinir þeirra

Körfuboltadómarar og vinir þeirra

Það hefur verið töluverð umræða undanfarið um dómgæslu t.d. í yngri flokkum og síðustu árin hefur ákveðin vitundarvakning komið til varðandi foreldra og hegðun þeirra á kappleikjum. Til viðbotar koma reglulega upp atvik í meistaraflokkum þar sem dómarar eru gagnrýndir, leikmenn og þjálfarar sendir sturtu og í kjölfarið dæmdir í bönn með allri þeirri fjölmiðlaumfjöllun sem því fylgir.

Ég er búinn a vera lengi viðriðinn íþróttir og þá mestmegnis körfuboltann þótt ég hafi einnig keppt í ýmsum öðrum íþróttagreinum þegar ég var yngri. En þegar ég fór að hugsa aðeins um þetta áttaði ég mig á því að ég hef átt samskipti við dómara á nánast öllum stigum körfuboltans, alveg sama hvernig á það er litið. Sem leikmaður hef ég leikið upp yngri flokkana, bæði úti á landi (ólst upp á Laugarvatni og lék fyrst með Laugdælum þar sem leikinn var körfubolti í ýmsum félagsheimilum og við aðstæður sem í dag geta vart talist boðlegar) og á svo höfuðborgarsvæðinu með Haukum sem var töluvert öðruvísi lífsreynsla þar sem allt í einu var maður að leika með og gegn þeim bestu á landinu Auk þess lék ég 15 ára gamall í Minnesota og kynntist yngri flokka dómgæslu þar. Svo þegar ég rataði upp í meistaraflokk fékk ég reynslu af dómgæslu sem leikmaður í 1. deild, úrvalsdeild og með bæði yngri landsliðum og A landsliði. Sem leikmaður hef ég kynnst öllu dómaralitrófinu sem er í boði. Síðar gerðist ég þjálfari og hef þjálfað bæði kvenna og karlaflokka, bæði í neðri deildum og úrvalsdeildum auk þess sem ég hef þjálfað alla aldursflokka, frá þeim yngstu og upp í unglingaflokka. Ég hugsa að það sé varla til sá karakter eða aðstaða varðandi dómgæslu á Íslandi sem ég hef ekki kynnst af eigin raun. Í gegnum allan þennan tíma hef ég líka gerst dómari sjálfur, aðallega í yngriflokka mótum. Til viðbótar má svo nefna að núna undanfarið er ég að kynnast dómgæslu sem foreldri, bæði í fótbolta og körfubolta og það er vægast sagt ný sýn sem er mjög áhugaverð.

Ástæðan fyrir þessari upptalningu er í raun bara til stilla upp því sem ég ætla að velta upp hér í framhaldinu og vonandi bæta einhverju inn í þá dómaraumræðu sem ég hef verið að hlusta á í fjölmiðlum og samfélagsmiðlum.

Ég held að allir geti verið sammála að þegar þeir stíga út á gólfið til að keppa, hvort sem það er leikmaður eða þjálfari, þá er óskin sú að dómarinn sé góður og geti dæmt sanngjarnt og vel. Það skiptir litlu hvort leikið sé úti á landi eða inni í höfuðborginni. Hins vegar er raunin sú að það eru ekki margir dómarar til á landinu og því er engin leið fyrir þá dómara sem hafa reynslu og þekkingu til þess að mæta í hvern einasta kappleik sem leikinn er… fyrir utan auðvitað kostnaðinn sem verður til við að flytja dómara á milli landshluta til þess að dæma.

Ég las nýlega stutta grein á samfélagsmiðlunum þar sem Kjartan Atli Kjartansson hrósar Keflvíkingum fyrir þeirra umgjörð í yngri flokka móti sem þar var haldið og þá sérstaklega fyrir það að vera með fullorðna og reynslumikla einstaklinga sem dæmdu leikina þar. Þetta er mjög gott hjá Keflvíkingum en það vaknaði önnur spurning hjá mér…  ef Keflvíkingar ætla sér að nýta sér alltaf eldri og reyndari dómara í sínum yngri flokka mótum, hvernig verða þá nýjir dómarar til og hvernig geta þeir fengið þessa dýrmætu reynslu sem körfuboltasamfélagið þarf nauðsynlega á að halda?

Oft er talað um brotfall leikmanna í yngri flokkum. Í síðustu viku var ég á foreldrafundi hjá yngriflokka liði í Haukum í fótbolta og þar var rætt um ástæður þess að börn og unglingar hætta að æfa íþróttir. Þetta er virkilega þörf umræða og mikilvægt að hún sé tekin alvarlega því óumdeilt er hversu góð áhrif íþróttaiðkun getur haft á samfélagið. Farið var yfir helstu ástæður á brottfalli og í þessu tilviki voru foreldrar hvattir til þess að vera meðvitaðir um þessar ástæður til þess að auka líkurnar á því að þeirra barn haldi áfram og verði ekki hluti af brottfalls tölfræðinni. Þarna var meðal annars komið inn á rétta hvatningu fyrir leikmanninn og liðið og passa að hvatning sé á jákvæðum nótum.

Ég myndi vilja yfirfæra þetta yfir á dómarastéttina. Svo skemmtilega vill til að öðru hverju verður til einstaklingur sem hefur einlægan áhuga á því að verða dómari. Ég er hins vegar ansi hræddur um að íþróttahreyfingin er alls ekki nógu meðvituð um brottfallshlutfall dómara úr íþróttum og spurning um hvort þetta gæti verið rannsóknarverkefni í íþróttafræðum.

Það er vel þekkt að þegar yngri flokka mót eru haldin eru það yfirleitt leikmenn sem eru aðeins eldri sem eru fengnir til þess að dæma. Þeir eru jú leikmenn og kunna leikreglurnar sæmilega vel… nógu vel yfirleitt til þess að dæma í aldursflokkum fyrir neðan sig. Maður spyr sig, hvernig er þeirra fyrsta reynsla af dómgæslu?

Samkvæmt minni reynslu og samkvæmt því sem maður heyrir í kringum sig og einnig í grein sem fyrr nefndur Kjartan Atli Kjartansson birti fyrir stuttu er hin sorglega staðreynd sú að þeirra fyrsta reynsla sem dómari er sorgleg. Leikmenn, þjálfarar, áhorfendur (foreldrar) og fleiri taka höndum saman um það að gagnrýna nánast allt sem þessi ungi dómari gerir. Nú er þetta mögulega dálítið ýkt hjá mér en sannleikurinn býr þó í þarna. Ég hef oft orðið vitni af því að ungir dómarar eru nánast teknir andlega af lífi á gólfinu. Þjálfar hoppa og skoppa af bræði (annar þeirra þarf jú alltaf að tapa), leikmenn sjá þetta og missa alla virðingu fyrir ákvörðunum dómarans og hrista hausinn og fussa og sveia yfir öllu smávægilegu. Svo heyrast svívirðingarnar ofan úr áhorfendapöllum sem dómarinn reynir eins og hann getur að leiða hjá sér en gengur þó ekki. Síðast en ekki síst kemur svo fram kaldhæðnin sem birtist í því að leikmenn og þjálfarar hlægja yfir ætluðum mistökum og klappa svo kaldhæðnislega fyrir dómaranum þegar honum verður á (eða ekki) mistök. Hverjar ætli líkurnar á þvi að þessi ungi dómari bregðist vel við því þegar hann er beðinn um að dæma á næsta móti?

Undanfarin ár hafa mörg lið brugðist við þessu einfaldlega með því að nota ekki yngri leikmenn sem dómara og færa ábyrgðina á dómgæslu yfir á meistaraflokkana. Vissulega leysir þetta ákveðinn vanda þar sem yngri leikmenn veigra sér við því að frussa yfir fullorðna einstaklinga og þjálfarar vita að þeir komast ekki upp með eins mikið af rausi þegar meistaraflokksleikmenn eru að dæma hjá þeim. Foreldrar í pöllunum, sem hafa mis mikið vit á íþróttagreininni rósa sig aðeins niður því, þótt þeir láti eitthvað út úr sér öðru hverju, þá eru mestar líkur á því að þessi dómari viti meira en þeir og þeir verða því að treysta þessum dómurum almennt. Hvað þá þegar topparnir í dómarastéttinni mæta á staðinn til þess að dæma í yngri flokka móti, eins og minnst var á hér fyrr í greininni… þá næst loks ákveðinn friður um dómgæsluna og umgjörðin verður eins og best verður á kosið.

Erum við að gera dómarastéttinni gott með þessu? Mín skoðun er sú að þetta gæti verið upphafið að stærra vandamáli. Yngri dómarar verða að fá tækifæri til þess að dæma. Ef þeir dæma ekki í yngri flokka mótum – hvar eiga þeir þá að taka sín fyrstu skref í dómgæslu? Að mínu mati verða yngri dómarar að fá að dæma í yngri flokkum… við megum ekki taka það frá þeim. Þar að auki verðum við að tryggja það að yngri leikmenn sem beðnir eru um að dæma séu líklegir til þess að fá jákvæða reynslu af dómgæslu og þannig líklegri til að vilja endurtaka dómgæsluna.

Klárt er að allir þeir sem byrja að æfa munu ekki skila sér í meistaraflokk. Eins og ég talaði um áðan þá er brottfall úr íþróttum staðreynd og það liggur ekki fyrir öllum sem æfa að verða meistaraflokksleikmenn. Það þýðir ekki að áhugi þeirra á íþróttinni sé minni. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir íþróttahreyfinguna að þessir einstaklingar kúpli sig ekki út að fullu. Það þarf að virkja þessa einstaklinga áfram, t.d. í stjórnarstörfum, sjálfboðaliðastörfum í kringum umgjörð leikja o.s.frv. En að mínu mati er þarna stór hópur af einstaklingum sem með réttu hugarfari íþróttasamfélagsins gætu orðið dómarar… þ.e. ef við erum ekki búin að berja alla slíka löngun frá þeim með áður nefndum svívirðingum og drullufrussi.

Semsagt… lausnin liggur ekki í því að hætta að treysta yngri dómurum fyrir verkefninu, heldur að skapa þeim jákvæða reynslu af dómgæslu. Það þarf að leyfa þeim að gera mistök, alveg eins og leikmönnum og þjálfurum án þess að grýta í hann neikvæðni bombum á færibandi. Þjálfarar og félögin sjálf bera gríðarlega ábyrgð í þessu og ég vildi óska þess að allir sem einn myndu sjá ljósið og byggja undir jávæða reynslu dómara… á hvaða aldri sem er.

Ég ætla svosum ekki að sitja hér og segja að ég hafi verið mannanna bestur í gegnum árin og heldur ekki að ætla neinum að viljandi rífa niður dómara… svona hlutir gerast í hita leiksins en ég held að með því að opna umræðuna um þetta gætu góðir hlutir gerst. Ég vil samt setja fram ákveðnar grunn hugmyndir varðandi þessa hluti og skora á þjálfara og stjórnir félaga að velta þessu aðeins fyrir sér. Dómarar hafa í gegnum tíðina verið félagsbundnir, þ.e. dæma fyrir hönd ákveðins félags. Þ.a.l. myndi ég halda að það væri á ábyrgð félaganna sjálfra að framleiða dómara… alveg eins og leikmenn… með vandaðri þjálfun og umgjörð. Einstaklingur sem sýnir vilja til að dæma ætti að verða félaginu verðmætur, alveg eins og efnilegur leikmaður. Þannig þarf félagið að passa það að þjálfarar sem þjálfa í nafni félagsins hafi ákveðin grunn gildi gagnvart dómurum. Þ.e. að gagnrýna uppbyggilega… hvetja þegar vel er gert og leiðrétta þegar mistök gerast. Ef þessi útópíska sýn næði fram að ganga er ég viss um að íþróttahreyfingin í heild myndi græða mikið enda myndum við fá þá ósk okkar uppfyllta, sem ég talaði um framarlega í greininni, að alltaf þegar við stígum fram á keppnisgólfið eru góðir og faglegir dómarar mættir á staðinn til þess að dæma… og ef þetta eru dómarar í þjálfun, þá fá þeir nauðsynlega reynslu og þekkingu til þess að verða betri dómarar… en ekki viðbót við brottfalls hlutfallið.

Þarna er ég búinn að henda ábyrgðinni dálítið mikið á þjálfara og félögin. Keflavík reyndi með sínum hætti að bjóða upp á góða dómara í sitt yngri flokka mót með því að nýta full tamda dómara og ég kann virkilega að meta þá hugsun sem þar býr að baki. En ég vil henda hér fram annarri hugmynd að dómgæslu í yngri flokka mótum. Ég vil endilega að félögin nýti yngri dómara og aðstoði þá eftir bestu getu. En ég myndi vilja sjá dómarasamfélagið koma til móts við félögin og finna leið til þess að senda einn reynslumikinn dómara á hvert mót, hvort sem það er heimamaður eða ekki. Sá dómari myndi dæma með þeim yngri og spjalla við þá fyrir og eftir leik til þess að leiðbeina og svo fara yfir það sem hefði verið hægt að gera betur. Með þessu myndum við hraða þróun dómara mikið auk þess sem á staðnum væri einstaklingur sem myndi hjálpa til ef dómari skyldi fá slæma útreið ofan úr pöllum eða frá þjálfurum. Þessi dómari gæti mögulega rætt við viðkomandi þjálfara og reynt að fá hann til að sjá ljósið… og leiðbeint stjórn viðkomandi félags um hvernig þeir geti hlúð sem best að sínum dómurum. Ég er viss um að þátttaka á dómaranámskeiðum í framhaldinu myndi margfaldast og allir græða.

Þetta er nú þegar orðin töluverð langloka hjá mér en mig langar samt að ræða dómaramál frá öðru sjónarhorni en frá yngri flokkum. Ég ætla að gerast svo grófur að ræða dómara í meistaraflokkum, samskipti þeirra við þjálfara og hvort það sé hægt að gera þau betri, þannig að brottvikningum fækki, leikbönnum fækkar og heildar ásýnd íþróttagreinarinnar gagnvart almenningi verður betri (þá er ég ekki að meina að hún sé slæm í dag).

Að mínu mati eru dómarar innan körfuboltahreyfingarinnar (þekki ekki til annarra íþróttagreina í þessu sambandi) einn sá hópur sem mestan áhuga hefur á körfubolta. Það sést berlega á hversu margir þeirra eru reglulegir áhorfendur á körfuboltaleikjum, hversu stór hópur þeirra mætti til Berlínar um daginn og hversu mikinn metnað þeir setja í sín störf með alls konar námskeiðum, matskerfi og fundum ásamt þrekprófinu fræga. Leikmenn og þjálfarar, trúið mér, þeir eru að reyna að gera sitt besta 🙂

Hins vegar eru þeir misjafnir eins og þeir eru margir og eftir að ég fór að velta þessu fyrir mér í heild sinni sé ég að þeir eru margir hverjir brenndir af þessum sömu samskiptum og ég lýsti hér í yngri flokka hluta greinarinnar. Þeir eiga það allir sameiginlegt að hafa setið undir svívirðingum, gagnrýni og mjög svo persónulegum árásum ofan úr áhorfendapöllum… og þar eru margir hverjir stjórnarmenn félaga hreinlega sekir fyrir allan peninginn. Þjálfarar og leikmenn hafa að sjálfsögðu minna svigrúm til að láta gamminn geysa enda geta dómarar einfaldlega rekið þá af velli. En þar liggur stundum hundurinn grafinn. Sumir dómarar eiga það til að verja sig með því að einfaldlega að loka nánast á öll samskipti og leiða hjá sér þjálfara þegar þeir eru að reyna að tjá sig… sem síðan getur undið uppá sig og þarna geta orðið til ansi miklar tilfinningar sem dómarar, alveg eins og þjálfarar eða leikmenn, bera ábyrgð á. Nema hvað – að dómarinn hefur verkfæri til að taka á málinu en leikmenn og þjálfarar hafa það ekki. Hann gefur tæknivillur. Hvað er það sem leikmenn og þjálfarar geta gert?  Jú – gagnrýna í fjölmiðlum, það er engin annar ventill í boði.

Það er náttúrulega engin leið að vita hvernig samskipti dómara, þjálfara og leikmanna gætu litið út ef heil kynslóð dómara hefði alist upp án svívirðinga og að þjálfarar og leikmenn séu vanir því að allir dómarar séu ávallt reyndir fagmenn. En þetta gæti verið eitthvað sem væri gaman að stefna að.

Mg langar hins vegar líka að benda dómurum á að það sama á við um þjálfara og leikmenn. Þeir mæta ekki til leiks staðráðnir í því að eiga í einhverju míní stríði vð dómara leiksins. Það er enginn að undirbúa það hvernig þeir ætla að öskra á dómara og hvað segja skal. Allir þjálfarar og leikmenn eru líka að gera sitt besta. Þetta byggist allt á samskiptum. Dómarar eru misjafnir persónleikar og þjálfarar og leikmenn læra inn á þá eftir því sem þeirra leiðir skarast oftar. Suma dómara er hægt að öskra meira á en aðra. Sumir eru fljótir að dæma tæknivillur og aðrir ekki. Á sama hátt eru þjálfarar og leikmenn misjafnir og dómarar eru eflaust fljótari að dæma á suma en aðra ekki, ég get svosum ekki fullyrt neitt um það en það er bara mannlegt eðli.

Þarna eru samskipti lykilatriði og ef mér finnst eitthvað vanta uppá hjá dómurum, þá eru það þessi samskipti.  Ég hef auðvitað eignast mína uppáhalds dómara í gegnum tíðina, sem ég treysti betur en öðrum og þegar ég fór að hugsa um hvað það er sem liggur þar á bakvið þá enda ég yfirleitt á þessum títt nefndu samskiptum. Allir dómarar gera mistök í dómgæslu, það er ekki hægt að sjá allt. Auðvitað eru sumir betri en aðrir en það á líka við um þjálfara og leikmenn. En þar sem dómara skilur að í mínum huga er í samskiptum og sjálfsöryggi. Þá er ég að meina að dómari sem er nógu sjálfsöruggur til þess að átta sig á að hann hafi ekki alltaf rétt fyrir sér er í mínum huga þeim mun betri.

Í þessari grein hef ég kosið að tala ekki um ákveðnar persónur en mig langar samt að minnast á dómara sem ég tel að séu leiðandi í einmitt þessu. Það er engin tilviljun að Sigmundur Herbertsson hefur verið kosinn dómari ársins oftar en ég get munað. Ég tel að lykilatriði í því er það að hann er tilbúinn til þess að eiga góð samskipti við þjálfara og leikmenn. Hann er ávallt tilbúinn til þess að taka við athugasemdum sem settar eru fram án þess að taka því sem gagnrýni á hans eigin frammistöðu. Auðvitað verða dómarar að hafa einhvern vinnufrið en þeir geta einmitt fengið hann með því að passa að þjálfarar fái tækifæri til þess að tjá sig.

Annað dæmi sem mig langar að minnast á er mjög gott atvik sem ég lærði mikið af. Þá var Leifur Garðarsson að dæma og hafði greinilega misst af einhverju því annar þjálfarinn gjörsamlega brjálaðist og fór að skammast og rífast. Eftir eina sókn í viðbót var þjálfarinn ennþá mjög ósáttur og í þessu tilviki hafði Leifur fjóra kosti… Leiða hann hjá sér, rífast á móti, gefa tæknivillu eða það sem hann endaði á að gera. Hann notaði næsta stopp í leiknum til þess að fara til viðkomandi þjálfara og sagði við hann eitthvað á þessa leið: „Ég sé á viðbrögðum þínum að ég greinilega missti af einhverju, eitthvað gerðist áðan sem ég hreinlega sá ekki. En ég get ekki gert neitt núna og við verðum að halda áfram með leikinn.“ Þjálfarinn var ennþá æstur og sagði frá því hvað hann hafði misst af og Leifur sagði þá eitthvað í líkingu við þetta: „Gott að vita þetta, ég skal passa mig á að fylgjast með þessu atriði ef það skyldi koma fyrir aftur“. Svo flautaði hann leikinn á aftur. Þjálfarinn var núna orðinn rólegur aftur, hafði fengið að koma sínu á framfæri og fullviss um að dómarinn væri að gera sitt besta. Það varð allt annað andrúmsloft í leiknum eftir þetta og dómararnir fengu þann vinnufrið sem þeir þurftu. Þetta tók kannski 20 sekúndur og er frábært dæmi um góð samskipti sem dómarar geta stofnað til. Ég vildi óska að fleiri dómarar tækju sér þetta til fyrirmyndar því allt of margir kjósa einhvern af hinum þremur kostunum sem leiða allir til verri niðurstöðu.

Það versta sem við gerum er nefnilega að reyna að ýta tilfinningum út úr leiknum. Þjálfarar og leikmenn verða að fá útrás fyrir tilfinningar því leikur án tilfinninga getur varla verið spennandi né skemmtilegur. Leikmaður sem er skapmikill og líflegur er oft uppáhald ansi margra. Þjálfari sem lifir sig inn í leikinn gerir hlutina bara skemmtilegri. Dómari sem er ekki brenndur af ítrekuðum svívirðingum og hefur fengið stuðning þjálfara og stjórnarmanna í gegnum sinn feril frá því að hann var ungur yrði miklu betur í stakk búinn til þess að dæma leiki með sjálfstrausti, ákveðni og færni og á sama hátt fengju þjálfarar og leikmenn tækifæri til þess að einbeita sér að því að leika sem bestan bolta vitandi það að dómgæslan er í góðum höndum… þeim höndum sem sömu þjálfarar hafa leiðbeint í gegnum tíðina og átt stóran þátt í að gera að afburða dómara.

Áðurnefndur Kjartan Atli hefur nýlega rætt um ungan dómara og þá meðferð sem hann fékk frá áhorfenum og þjálfara. Hann lagði til að það ætti að vera hægt að vísa áhorfanda úr salnum vegna hegðunar. Þessu er ég algjörlega sammála, mér finnst að í yngri flokka mótum sem leikið er í, hvort sem það er körfubolti, fótbolti eða eitthvað annað, ef það er áhorfandi sem sýnir af sér ófélagslega hegðun, hvort sem það er gegn ungum leikmanni eða ungum dómara, á stjórn viðkomandi félags að sjá til þess að sá hinn sami fái leiðbeiningar um hvernig á að haga sér og ef það dugir ekki til þá einfaldlega að vísa honum frá. Stjórnarmenn verða að leiða þetta í rétta átt og þjálfarar geta haft gríðarleg áhrif á sína eigin leikmenn og aðra. En það vill þannig til að grófustu svívirðingarnar koma ofan úr áhorfendapöllunum og það verðum við að stöðva, saman.. sem heild.

Nú þegar fleiri íslenskir leikmenn eru að koma upp í gegnum unglingastarfið og að verða heims klassa leikmenn þurfum við núna að taka höndum saman og búa líka til heims klassa dómara. Þá getum við heldur betur orðið stolt af íþróttasamfélaginu, frá yngsta þátttakenda til landsliða í Evrópukeppnum… til dómara, stjórnarmanna og öllum öðrum sem koma að starfinu.

Virðingarfyllst,
Bragi Hinrik Magnússon

Fréttir
- Auglýsing -