Fjöldi leikja fer fram í FIBA Europe Cup í kvöld. Þrír herramenn sem við eigum þónokkuð í verða á ferðinni en Hörður Axel Vilhjálmsson og Nymbruk leika heima, Jakob Örn og Boras eru mættir til Ítalíu og þá verða Israel Martin og Bakka-Birnirnir hans í Dublin í kvöld.
Jakob Örn er með Snappið fyrir Karfan.is en hann og Boras mæta Foxtown Cantu á Ítalíu í kvöld kl. 20:30 að staðartíma. Þrjú lið eru jöfn í þessum E-riðli FIBA Europecup en Boras, Foxtown Cantu og STB Le Havre hafa öll unnið tvo leiki og tapað einum.
Hörður Axel og Nymbruk fá Tajfun í heimsókn til Tékklands í kvöld og hefst leikurinn 18.30 að staðartíma. Nymbruk er í 2. sæti F-riðils með 2 sigra og eitt tap.
Israel Martin og Bakken Bears eru á toppi riðilsins og hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa en Bakken Bears fara til Dublin í kvöld og leika gegn Hibernia kl. 19:30 að staðartíma. Martin hefur stýrt Bakken til níu sigurleikja af tíu það sem af er tímabili en Bakken eru 6-1 í dönsku úrvalsdeildinni og 3-0 í riðlakeppni FIBA Europe Cup.