Ísland og Ungverjaland mætast í dag í fyrsta landsleik þjóðanna þegar liðin eigast við í Miskolc í Ungverjalandi í forkeppni EuroBasket kvenna 2017. Viðureign liðanna hefst kl. 20:15 að staðartíma eða kl. 19:15 að íslenskum tíma.
Íslenska liðið hefur fengið tvær æfingar til þessa í Miskolc til að stilla saman strengi sína en ljóst er að á brattann er að sækja. Ungverjar tefla fram mun hávaxnara liði en það íslenska en okkar konur ætla sér að hafa hávaða í vörninni og freista þess að hleypa leiknum upp í smá ærslagang. Karfan TV ræddi við Berglindi Gunnarsdóttur á æfingu liðsins í gær en Berglind er annar tveggja nýliða í landsliðinu um þessar mundir.