Íris Ásgeirsdóttir fyrirliði Hamars í Hveragerði verður ekki með Blómabæjarkonum í Domino´s deildinni á komandi vertíð en hún er barnshafandi. Þetta staðfesti Íris í samtali við Karfan.is í dag. Hvergerðingar missa þarna stóran spón úr aski sínum enda Íris annálaður baráttujaxl.
Íris leiddi Hamarskonur í stoðsendingum á síðasta tímabili með 2,6 að jafnaði í leik en hún var einnig með 12,1 stig og 4,5 fráköst.
„Ég verð nú ekki aðstoðarþjálfari en ég verð alveg klárlega með þeim í þessu þó ég geti ekki verið inni á vellinum. Ég verð á bekknum og reyni að hvetja þær áfram eins mikið og ég möglega get,“ sagði Íris í samtali við Karfan.is í dag.