spot_img
HomeFréttirHrafn: Körfuboltaþjálfun í fullu starfi hefur alltaf verið mitt markmið

Hrafn: Körfuboltaþjálfun í fullu starfi hefur alltaf verið mitt markmið

17:15
{mosimage}

(Hrafn Kristjánsson)

Nýverið var Hrafn Kristjánsson ráðinn þjálfari Breiðabliks í Iceland Express deild karla. Blikar voru nýliðar á síðustu leiktíð og komust í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Á meðan var Hrafn með lið Þórs frá Akureyri og mátti horfa upp á félagið falla niður í 1. deild þrátt fyrir hetjulega frammistöðu gegn KR í síðustu umferð deildarkeppninnar. Karfan.is fékk að leggja nokkrar laufléttar spurningar fyrir Hrafn sem er enn búsettur á Akureyri en er væntanlegur á mölina innan skamms.

Hvað varð til þess að þú ákvaðst að taka við Breiðablik?
Þegar það varð orðið ljóst að ég myndi ekki halda áfram með meistaraflokkinn hjá Þór bjóst ég frekar við því að ég yrði áfram fyrir norðan og tæki yngri flokkana í framhaldinu fyrst um sinn en ákvað þó að halda öllu opnu í einhvern tíma. Það settu nokkrir aðilar sig strax í samband við mig og sumir þeirra nokkuð áhugaverðir en það sem Blikar höfðu að bjóða heillaði mig strax.  Það að vinna við körfuboltaþjálfun í fullu starfi er eitthvað sem alltaf hefur verið mitt markmið og sú umgjörð og framtíðarsýn sem þeir bjóða upp á er mjög spennandi.

Þinn tími með Þór Akureyri, ertu sáttur við þín verk fyrir norðan?

Á heildina litið er ég nokkuð sáttur verð ég að segja. Það verður að viðurkennast þó að tvö tímabil eru vel undir væntingum en það spilaði svo sem margt þar inn í sem erfitt var að eiga við.  Ég hef alltaf lagt upp með að vera góður félagsmaður þar sem ég þjálfa og sjálfsagt má segja að ég hafi gengið í full mörg störf oft og tíðum til að hlutirnir gætu gengið. Þó það sé ekki alltaf óskastaða þjálfara að vera í er ég einnig stoltur af þeim störfum sem ég skilaði til deildarinnar er lúta að umgjörðinni og rekstri hennar síðastliðin fimm ár, störf sem ég tel að hafi verið Þórsurum tvímælalaust til góða. Ég skil nú við Þór og Akureyri sáttur og á fjölmarga vini og félaga sem ég og mín fjölskylda eigum alltaf eftir að búa að. Þó enginn viti sína ævi fyrr en öll er þykir mér það líklegast að hringnum hjá mér verði lokað hér á Akureyri á endanum hvernær sem það verður.

Verða það einhverjir leikmenn úr Þórsliðinu sem fylgja þér suður í Breiðablik?
Ég náttúrulega hitti fyrir tvo af mínum fyrri Þórsleikmönnum í Blikaliðinu, þá Þorstein Gunnlaugsson og Birkir Heimisson, sem ég vona að ég fái að vinna með næsta tímabil. Ég veit ekki til þess að einhverjir leikmenn Þórs séu á leið suður en ef svo er má alveg skoða að taka þá inn á æfingar rétt eins og hvern þann sem hefur áhuga á að klæðast Breiðabliksbúningnum næstu leiktíð. Ég myndi aldrei að fyrra bragði ganga á leikmenn að norðan með það að markmiði að ná þeim til mín frá mínu gamla félagi.

Hver finnst þér vera þín fyrstu og helstu verk í Kópavogi?
Nú stendur yfir sú vinna að tryggja sem sterkastan leikmannahóp fyrir sumarið. Ég er enn búsettur fyrir norðan þannig að ég ligg meira og minna í símanum og sendi tölvupósta allan sólarhringinn. Það er viðbúið að einhverjir leikmenn hugsi sér til hreyfings en ég hef nokkuð ákveðnar hugmyndir varðandi hverjum ég vil halda áfram og vinn í því að tryggja mér starfskrafta þeirra leikmanna þessa dagana. Það má einnig vera að einhver ný andlit bætist í hópinn en þannig ákvarðanir eru einungis teknar á réttum forsendum í Kópavoginum. Vonandi má sjá einhverjar fréttir af okkar leikmannamálum í næstu viku.

Hvernig ætla Blikar að nýta sumarið?
Stefnan er að taka þriggja vikna program sem byrjar í næstu viku sem byggt er upp á bolta og frjálsíþróttaþjálfun. Það verður svo frí frá körfubolta bróðurpartinn af júní en þá ætlast ég til að leikmenn vinni eftir æfingaáætlunum sjálfir. Í byrjun júlí hefjast svo æfingar aftur rétt fyrir landsmót en þá sýnist mér að sent verði sameiginlegt lið Breiðabliks og Stjörnunnar undir merkjum UMSK.  Það má því búast við blóðugum inngönguprófum fyrir það mót sem verður skemmtileg byrjun á eiginlegu undirbúningstímabili beggja liða.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -