Hörður Axel Vilhjálmsson leiddi sína menn í stigum í tvíframlengdum tapleik gegn Telekom Baskets Bonn í gærkvöldi. Úlfarnir fóru hægt af stað og voru 14 stigum undir þegar fjórði og síðasti leikhluti hófst.
Þá spýttu okkar menn í lófana og sigruðu þann leikhluta 28-14 og tryggðu sér framlengningu. Fyrsta framlengingin fór 15-15 og því þurfti að framlengja í annað sinn. Langur stigalaus kafli á síðustu 3 mínútum leiksins þar sem margir boltar töpuðust veitti hins vegar Úlfunum náðarhöggið. Hörður náði þó að setja þrist rétt áður en leik lauk með 3 stiga tapi Úlfanna 96-99.
Hörður Axel skaut vel utan af velli með 6/12 skotnýtingu og þar af 4/7 í þristum. Hann bætti svo við 3 stoðsendingum og 2 fráköstum.
Þjálfari Úlfana sagði liðið vanta reynslu til að loka svona jöfnum leikjum, en betra liðið hefði unnið leikinn þetta kvöld.
Mynd: Hörður Axel í leik Úlfanna á föstudaginn. (Matthias Kuch)