Hörður Axel Vilhjálmsson spilar sem atvinnumaður hjá þýska liðinu Mitteldeutcher BC eða Úlfunum eins og þeir eru kallaðir í daglegu tali. Hann var því mjög sáttur þegar Ísland var dregið í Berlínar-riðilinn fyrir lokakeppni Eurobasket 2015 sem haldin verður í september á næsta ári.
“Ég var að vonast eftir að fá að spila í Berlín,” sagði Hörður í stuttu spjalli við Karfan.is.
Hann sagði það lyginni líkast að öll þessi lið hefðu lent saman í riðli, en fannst það jafnan gleðiefni að lenda á móti þeim bestu í Evrópu. “Fyrst við komum okkur inn á móti, því ekki að spila bara við rjómann af bestu liðum Evrópu?”
Hörður er ekki tilbúinn að gefa neitt eftir þó að þetta séu bestu lið Evrópu. “Við erum ekkert að fara út til að leggjast niður og láta keyra yfir okkur. Við munum gera allt til að láta öll liðin hafa fyrir þvi að spila á móti okkur.”
Hörður sagði í spjalli á Facebook síðu MBC að hann hlakkaði mikið til að mæta Dirk Nowitzki ef hann ætli að taka þátt. “Ég hef reyndar persónulega fylgst meira með [landsliðsmanni Serbíu, Milos] Teodosic í gegnum tíðina og hermt eftir honum. Það verður fínt að prófa hreyfingarnar sem ég fékk frá honum á hann sjálfan.”
“Þetta verður vonandi vakning heima fyrir á evrópskum körfubolta,” bætti hann við að lokum.