spot_img
HomeFréttirHlynur Bæringsson: Stefnum á sæti í A-deild

Hlynur Bæringsson: Stefnum á sæti í A-deild

{mosimage}

Kraftframherjinn Hlynur Bæringsson telur það meira en raunhæft markmið fyrir íslenska A-landsliðið að komasta í A-deild Evrópukeppninnar en landsliðið tekur þátt í Evrópukeppni B-liða í september. Þá er ennfremur komið á hreint að Hlynur verði með Snæfellingum í vetur og er hann um þessar mundir að byggja sér hús í Stykkishólmi.

 

Íslenska landsliðið heldur til Hollands á fimmtudagsmorgun þar sem það tekur þátt í æfingamóti og leikur gegn heimamönnum í Hollandi, Belgum og Svíum. Eftir æfingamótið í Hollandi fer liðið beint á annað æfingamót í Dublin á Írlandi þar sem leikið veður gegn Írum og Bretum. „Eftir æfingaleikina taka við stífar æfingar fram að Evrópukeppninni,“ sagði Hlynur í samtali við Karfan.is. „Það er tvímælalaust raunhæft fyrir okkur að stefna á sæti í A-deild Evrópukeppninnar. Við vorum lélegir á Norðurlandamótinu þar sem menn voru ekki alveg komnir í sitt besta stand. Finnar eru lið sem við getum unnið, við töpuðum gegn þeim í jöfnum leik á Norðurlandamótinu þar sem við lékum illa,“ sagði Hlynur. „Til þess að vinna Finna þurfum við að eiga toppleik og ef við spilum eins og við gerum best þá vinnum við þá,“ sagði Hlynur en Ísland tekur á móti Finnlandi í Laugardalshöll miðvikudaginn 6. september í fyrsta leik sínum í Evrópukeppninni.

 

Hlynur mun leika með Snæfellingum í vetur eins og áður hefur komið fram en hefur lítið getað æft með liðinu sökum anna í landsliðsverkefnum. Hann telur að Snæfellingar muni ekki fá til sín Evrópumann í fyrstu þó bandarískur leikmaður verði innan þeirra raða. „Við byrjum ekki með bosmann en það gæti verið að hann yrði kallaður til ef það myndi ganga illa,“ sagði Hlynur sem ætlar að klára að byggja húsið sitt í Stykkishólmi og leika eitt tímabil með Snæfellingum. Eftir það getur hann hugsað sér að huga að því að komast að nýju í atvinnumennsku utan Íslands en hann lék með WoonAris! í Hollandi á seinustu leiktíð þar sem hann var valinn í Stjörnuleikinn í Hollandi.

 

nonni@karfan.is

Fréttir
- Auglýsing -