Hilmar Smári atkvæðamikill fyrir Bremerhaven

Hilmar Smári Henningsson og ísbirnir frá Bremerhaven máttu þola tap gegn Hagen í Pro A deildinni í Þýskalandi, 84-89. Á tæpri 21 mínútu spilaðri í leiknum skilaði Hilmar Smári 13 stigum, 4 fráköstum, stoðsendingu og stolnum bolta.

Leikurinn var sá annar sem Hilmar og Bremerhaven léku á aðeins þremur dögum, en nú fyrir helgi lagði liðið Rasta Vechta, 84-95. Þá lék Hilmar Smári tæpar 26 mínútur og skilaði á þeim 12 stigum, 2 fráköstum og 4 stoðsendingum.

Ísbirnirnir eru í 15. sæti deildarinnar eftir fyrstu sex umferðirnar með tvo sigra og fjögur töp það sem af er deildarkeppni.