spot_img
HomeFréttirHaukastúlkur sigruðu þrátt fyrir slakan leik hjá Hardy

Haukastúlkur sigruðu þrátt fyrir slakan leik hjá Hardy

Þrátt fyrir slakan leik frá LeLe Hardy, einum besta leikmanni Dominosdeildar kvenna, lönduðu Haukastúlkur öruggum sigri á Ásvöllum í kvöld, 62-54.
 
Allt leit út fyrir einstefnuleik hjá heimamönnum sem voru yfir nánast alla leikinn að undanskyldum fyrstu mínútunum. Um miðbik þriðja hluta tók að halla undan fæti hjá Haukum þar sem boltinn vildi ekki ofan í og varnarleikur gestanna tók stakkaskiptum. 2-13 kafli kom Völsurum upp aðeins 4 stigum frá Haukum í upphafi fjórða hluta, 42-38. 
 
Þá varð heimamönnum nóg boðið, snéru vörn í sókn og hófu að sökkva skotum út um allan völl og hentu sínum eigin 13-2 kafla í fangið á Völsurum – staðan 57-40. 
 
Á lokakaflanum bitu gestirnir eitthvað frá sér og náðu að setja niður 14 stig en aldrei að ógna öruggum sigri Hauka.
 
Dagbjört Samúelsdóttir leiddi Hauka með 14 stig og 4/8 í þristum en LeLe Hardy var að hitta mjög illa en skilaði samt 13 stigum, 13 fráköstum, 7 stoðsendingum og 5 stolnum boltum.  Hjá Val var það Ragnheiður Benónísdóttir sem leiddi með 10 stig og 12 fráköst en Fanney Lind og Sara Diljá fylgdu eftir með 9 stig hvor. Valur lék sem fyrr án erlends leikmanns í kvöld.
Fréttir
- Auglýsing -