Stjörnumenn fengu Hauka í heimsókn í 32-liða úrslitum Powerade-bikarsins í kvöld. Gestirnir sitja á toppnum ásamt KR í deildarkeppninni og mættu því vafalaust fullir sjálfstrausts í leikinn gegn brokkgengum heimamönnum.
Heimamenn mættu ákveðnir til leiks og tóku strax forystuna. Jón Orri byrjaði sterkt og virðist kunna vel við sig í stærra hlutverki í Garðabænum enda þykkjumikill baráttuhundur þar á ferð. Í stöðunni 12-6 höfðu Haukamenn ekki sýnt neitt að viti fyrir utan tvo þrista frá Hauki Óskars. Meistari Shouse bætti svo við snöggum 5 stigum fyrir heimamenn og gestirnir strax komnir í 10 stiga holu. Vörn gestanna var hriplek og sóknarlega virtust þeir telja tilgangslaust að fá minna en þrjú stig fyrir hverja sókn en þristarnir geiguðu hins vegar hver af öðrum. Það var gestunum til happs að hinn frábæri leikmaður Jarrid Frye hafði ekki enn stillt miðið og staðan 26-17 eftir fyrsta fjórðung.
Sóknarleikur Haukamanna hélt áfram að vera frekar einhæfur og framan af í öðrum leikhluta var það frekar léleg hittni heimamanna í annars opnum skotfærum sem hélt Haukamönnum á lífi. Um miðjan leikhlutann tókst gestunum að hleypa smá lífi í varnarleikinn og Alex Francis var duglegur en frekar einmana hinum megin á vellinum. Hann fór nokkrar ferðir á vítalínuna og ef vítanýtni væri til sölu hefðu gestirnir vel getað jafnað leikinn á þessum kafla. Sú var ekki raunin og Stjörnumenn fóru með 8 stiga forskot, 45-37 inn í hálfleikinn. Dagur Kár, FG-ingurinn snjalli, spilaði afar vel í fyrri hálfleik og var kominn með þriðjung stiga sinna manna.
Hlutlausum áhorfendum til ógleði og Haukamönnum til vængstýfingar byrjuðu heimamenn síðari hálfleik með látum. Fyrrnefndur Dagur skellti einum þristi og Marvin fylgdi í kjölfarið með nokkur stig. Francis hélt áfram að brenna af á línunni og staðan skjótt 55-39. Frye fór vaxandi í leiknum og smellti einum þristi og Ágúst fór að fordæmi hans í næstu sókn, staðan þá orðin 63-43 um miðjan fjórðunginn. Þarna höfðu líklegast flestir á tilfinningunni að gestirnir ættu ekki afturkvæmt, ráðaleysi og ólánssemi þeirra sennilega ólæknandi og krónísk úr þessu. Til að kóróna fjórðunginn tróð Jón Orri yfir Haukavörnina í lok hans og Dagur Kár reyndi slíkt hið sama, að vísu án árangurs en skemmtileg tilraun. Í staðinn stal hann boltanum á lokasekúndunum og munurinn enn 20 stig, 73-53.
Óþarfi er að hafa mjög mörg orð um síðasta fjórðunginn. Gestirnir virtust ekki hafa mikla trú á verkefninu, enda skuggsælt ofan í 20 stiga djúpri holu. Heimamenn bættu nokkuð við forskotið og fljótlega fjölgaði minni spámönnum á vellinum. Þeir sýndu fína baráttu og ágæta spretti enda mikilvægt að grípa gæsina þegar hún gefst. Lauk leik með öruggum sigri Stjörnunnar, 99-73.
Dagur Kár var bestur á vellinum í kvöld og virðist ætla að blómstra þennan veturinn. Hann spilaði af miklu öryggi og skoraði 24 stig. Frye var lengi í gang en var næstur Degi með 22 stig og umtalsvert af fráköstum og stoðsendingum. Margir aðrir lögðu í púkkið og Stjarnan augljóslega í andstæðu við Bárðarbungu af þessum leik að dæma.
Hjá gestunum var Haukur stigahæstur með 19 stig í reyndar ansi mörgum skotum. Francis lauk leik með 18 stig og 9 fráköst en 2 stig í 12 skotum af línunni er tæplega boðlegt. Haukamenn ekki vel stemmdir í kvöld, geta klárlega betur og Kári Jóns og Emil þurfa að mæta til leiks.
Umfjöllun: Kári Viðarsson
Myndasafn: Axel Finnur