,,Einn fór ofan í og þá kom sjálfstraustið svo ég hélt bara áfram,” sagði Fanney Lind Guðmundsdóttir sigurreif eftir sextánda sigurleik Hamars í röð í Iceland Express deild kvenna. Hamar hefndi sín á KR í kvöld 54 -65 en KR lagði Hamar í Poweradebikarnum síðustu helgi.
,,Ég kann vel við mig fyrir utan þriggja stiga línuna þó mín helsta staða sé undir körfunni,” sagði Fanney sem setti fjóra þrista í kvöld og nokkrir þeirra vel til þess fallnir að slökkva í tilraunum KR til að jafna metin við Hamar á seinni augnablikum leiksins. ,,Það er góður eiginleiki að geta hoppað út fyrir og skotið,” sagði Fanney sem gerði 16 stig fyrir Hamar í kvöld og bætti við að undirbúningur Hamars fyrir leikinn hafi gengið mjög vel.
,,Bikartapið var nægileg mótivering fyrir leikinn í kvöld svo þetta var aldrei spurning hjá mér og mínum liðsmönnum. Titlar eru okkar markmið, ekki að fara ósigraðar í gegnum deildina þó það væri vissulega plús.”
Chazny Morris fylgdist með af KR bekknum í kvöld en hún snéri sig á ökkla á æfingu og gat ekki verið í leikmannahópi. Rólegt var yfir leiknum í fyrri hálfleik en gestirnir þó skrefi á undan og leiddu 11-18 þar sem Jaleesa Butler gerði síðustu stig leikhlutans fyrir Hamar skömmu áður en flautan gall.
Annar leikhluti var við frostmark, hann fór 8-7 fyrir KR og gekk röndóttum hvað best að minnka muninn þegar Jaleesa Butler var ekki í Hamarsliðinu til að loka teignum. Staðan var því 19-25 fyrir Hamar í leikhléi og margir því fegnir að litlaus og tilþrifasnauður fyrri hálfleikur væri á enda.
Nokkuð lifnaði yfir leiknum strax í upphafi síðari hálfleiks, liðin byrjuðu á sitthvorum þristnum og skömmu síðar mætti miðherjinn Signý Hermannsdóttir með þrist og minnkaði muninn í 26-28. Ekki leið á löngu uns Hamar tók stjórnina á ný og þá lokaði Guðbjörg Sverrisdóttir þriðja leikhluta með mikilvægum þrist við lokaflaut leikhlutans og staðan 35-45 og munurinn orðinn 10 stig.
KR gerði sig líklegt til að komast nærri Hamri en þá kom Fanney Lind Guðmundsdóttir með þrist sem breytti stöðunni í 41-52 og annan síðar sem breytti stöðunni í 43-57. KR náði að minnka muninn í 52-59 þegar mínúta var til leiksloka en nær komust Vesturbæingar ekki og lokatölur 54-65.
Eftir sigurinn er Hamar sem fyrr á toppi A-riðils nú með 32 stig en KR hefur 18 stig í 3. sæti.
Heildarskor:
KR: Margrét Kara Sturludóttir 14/12 fráköst, Hildur Sigurðardóttir 13/8 fráköst/5 stolnir, Signý Hermannsdóttir 11/5 fráköst, Guðrún Gróa Þorsteinsdóttir 9/7 fráköst, Helga Einarsdóttir 4/9 fráköst, Hafrún Hálfdánardóttir 2, Sólveig Helga Gunnlaugsdóttir 1, Helga Hrund Friðriksdóttir 0, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 0, Svandís Anna Sigurðardóttir 0, Þorbjörg Andrea Friðriksdóttir 0, Rut Konráðsdóttir 0.
Hamar: Jaleesa Butler 29/15 fráköst/5 stoðsendingar/5 stolnir/6 varin skot, Fanney Lind Guðmundsdóttir 16/4 varin skot, Kristrún Sigurjónsdóttir 10, Slavica Dimovska 4/4 fráköst/6 stoðsendingar/6 stolnir, Guðbjörg Sverrisdóttir 3/5 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir 3, Rannveig Reynisdóttir 0, Jenný Harðardóttir 0, Regína Ösp Guðmundsdóttir 0, Bylgja Sif Jónsdóttir 0, Adda María Óttarsdóttir 0, Þórunn Bjarnadóttir 0.
Dómarar: Jón Guðmundsson, Kristinn Óskarsson
Myndir og umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]