13:34
{mosimage}
(Gunnlaugur H. Elsuson með Ármanni gegn KFÍ á síðustu leiktíð)
Gunnlaugur H. Elsuson hefur ákveðið að segja skilið við Ármenninga í 1. deild karla og er genginn til liðs við ÍR í Iceland Express deildinni. Búbót fyrir ÍR-inga sem nýverið misstu Ómar Sævarsson til Grindavíkur en að sama skapi leita Ármenningar nú að nýjum þjálfara í 1. deildinni. Gunnlaugur var einn sterkasti leikmaður Ármanns á síðustu leiktíð með 16,7 stig og 6,3 fráköst að meðaltali í leik.
,,Það er frágengið að ég fer í ÍR og mér líst vel á Breiðholtið,“ sagði Gunnlagur í samtali við Karfan.is en þar bjó hann 7 fyrstu ár ævi sinnar áður en hann fluttist á Sauðárkrók. ,,Ég lék með ÍR tímabilið 2004-2005 og þá fórum við í undanúrslit. Ég held reyndar að nánast allir séu farnir sem voru í ÍR þegar ég var þarna nema kannski Eiríkur Önundarson,“ sagði Gunnlaugur sem hefur tekið vel á því undanfarin misseri.
,,Þetta er allt á áætlun hjá mér, ég hef verið að æfa gríðarlega mikið í vor og verð áfram í sumar svo þetta kemur bara allt í ljós,“ sagði Gunnlaugur en býst hann við því að ÍR ætli að styrkja sig frekar fyrir næstu leiktíð?
,,Mér skilst að það eigi að styrkja liðið en ég þekki ekki mannskapinn nægilega vel í dag til að sjá hvort styrkja þurfi liðið eitthvað meira,“ sagði Gunnlaugur sem leikið hefur með Tindastól, Hamri, Þór Þorlákshöfn og KR í efstu deild. Gunnlaugur er íþróttastjóri Golfklúbbsins Odds og grunnskólakennari en verður hann á golfmótaröðinni í sumar?
,,Nei, ég verð bara með nemendur mína í Oddinum en það gæti vel verið að maður láti sjá sig á einhverju golfmótinu en ég vil frekar vera í ræktinni og spila körfu,“ sagði Gunnlaugur nýjasti liðsmaður ÍR.