FSu heimsóttu Hattarmenn í kvöld kl. 18:30. Um sannkallaðan botnslag var að ræða þar sem bæði lið voru án stiga fyrir leikinn.
Leikurinn var hnífjafn að mestu og höfðu heimamenn örlítið forskot mestan part en náðu aldrei að stinga af. Um miðjan þriðja leikhluta fóru þó talsverð villuvandræði að hrjá Hattarmenn. Í fjórða leikhluta voru Hreinn, Mirko, Eisteinn og Hallmar allir komnir með fjórar villur og farið að skorta greddu í varnarleik liðsins. Þeir týndust síðan útaf einn af öðrum og þegar um tvær og hálf mínúta voru eftir voru byrjunarliðsmennirnir þrír Hreinn, Eisteinn og Mirko farnir útaf með fimm villur. Þetta var of mikið af því góða fyrir Hattarmenn og leikur þeirra hrundi og endaði með ellefu siga tapi heimamanna 71-82.
Gestirnir voru sprækir á köflum en þeir léku án erlends leikmanns, en þó var nýr Amerískur leikmaður þeirra á bekknum í borgaralegum klæðum og hvatti sína menn til dáða.
Dómarar leiksins þeir Leifur Garðars, Jón Guðmunds og Halldór Jensson hafa átt betri dag og komu upp nokkur tilvik sem deilt var um en þeir eru jú allir heiðursmenn og mæta eflaust tvíelfdir í næstu umferð.
Hjá Hetti voru Tobin og Mirko sprækir en jákvæðast var sennilega að fá 17 stig af bekknum frá Hallmari Hallsyni sem var að finna gatið í kvöld en enginn veit afhverju strákpungur frá Hornafirði kann að skjóta boltanum utan þriggjastigalínunnur. Hann og Tobin virðast þó vera einu mennirnir sem geta skotið utan af velli með einhverju sjálfstrausti því aðrir virtust hreinlega hræddir við að skjóta boltanum og skotnýting liðsins eftir því.Hjá FSU voru Cris, Ari og Hlynur beittastir.
Umfjöllun/Frosti Sigurðarson
Mynd/Atli Berg Kárason