Friðrik Ingi Rúnarsson hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla í Njarðvík og bætist því í hópinn með Halldóri Karlssyni en báðir munu þeir aðstoða Einar Árna Jóhannsson með Njarðvíkurliðið á komandi tímabili. Það má því segja að Ljónatemjararnir séu sameinaðir á ný en Einar Árni steig sín fyrstu skref í efstu deild karla sem aðstoðarþjálfari Friðriks Inga í Njarðvík. Halldór Karlsson framlengdi einnig samningi sínum við félagið í dag.
„Við erum ofboðslega spennt fyrir samstarfinu við Friðrik Inga og ekki síst fyrir því að iðkendur í elstu yngri flokkum okkar fái einnig að njóta handleiðslu hans,“ sagði Kristín Örlygsdóttir formaður KKD UMFN.
„Mér líst afar vel á þetta verkefni og er ánægður að verða í eldlínunni með Njarðvík í Domino´s-deildinni á komandi tímabili. Þá er ég einnig spenntur fyrir því að vinna með drengja- og unglingaflokki til að efla þá á leið sinni yfir brúnna úr elstu yngri flokkum félagsins og upp í meistaraflokk. Ég tel Njarðvík fært um að skapa góðan vettvang fyrir þessa ungu leikmenn til að taka framförum og verða betri,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson.