Elvar Már á spjöld sögunnar í Meistaradeildinni

Elvar Már Friðriksson, leikmaður PAOK skráði sig í sögubækurnar í Meistaradeildinni í körfubolta í kvöld í 88-77 sigri gríska liðsins á Galatasaray í Tyrklandi, en hann er aðeins þriðji leikmaðurinn í sögu Meistaradeildarinnar til að ná þrefaldri tvennu með 19 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar og sá fyrsti til að ná því í útileik.

Hinir tveir leikmenn sem náðu þrefaldri tvennu í Meistaradeildinni eru Chris Kramer sem gerði það með EWE Baskets Oldenburg í janúar 2017 (16 stig, 10 fráköst og 13 stoðsendingar) gegn Muratbey Usak og Arnas Butkevicius sem gerði það með Neptunas Klaipeda í nóvember. 2017 (19 stig, 13 fráköst og 10 stoðsendingar) gegn PAOK.

Leikurinn var sá fyrsti í Meistaradeildinni þetta tímabilið, en næst leikur PAOK gegn Benfica þann 1. nóvember í Lissabon.

Tölfræði leiks