08:05:51
Carmelo Anthony og Chauncey Billups leiddu Denver Nuggets til sigurs á Dallas Mavericks í nótt, 124-110, og þar með í úrslit Vesturdeildarinnar. Denver vann fjóra leiki gegn einum í þessari rimmu sem einkenndist af mikilli baráttu og jafnvel hreinræktaðri úlfúð á tímabili, og mætir sigurvegaranum í einvígi Houston Rockets og LA Lakers þar sem Lakers leiða 3-2.
Denver hafa sannarlega tekið risaskref frá síðasta ári og munar þar mestu um að heimamaðurinn Chauncey Billups, sem ólst upp í Denver og sótti þar bæði miðskóla og háskóla, kom til liðsins frá Detroit í skiptum fyrir ofurstjörnuna Allen Iverson.
Denver mistókst að sópa Dallas í síðasta leik, en voru við stjórnvölinn allan tímann í nótt þar sem Dallas ógnaði varla forskotinu nema einu sinni, þegar um 7 mínútur voru til leiksloka þegar þeir minnkuðu muninn niður í 6 stig, 103-97. Anthony svaraði þá með ótrúlegri þriggja stiga körfu, sem flestir eru sammála um að hafi haft á sér heppnisstimpil, og stuttu síðar fékk Billups eitt vítaskot sem hann nýtti og munurinn var aftur orðinn 10 stig og Denver litu aldrei til baka.
Anthony var með 30 stig fyrir Nuggets og Billups 28, JR Smith var með 18 stig af bekknum, Nene var með 17 stig og Kenyon Martin 15.
Hjá Dallas var Dirk Nowitzki stigahæstur sem fyrr, með 32 stig og 10 fráköst, Jason Kidd var með 19, Brandon Bass var með 17, Josh Howard 14 og Jason Terry 11.
Tölfræði leiksins
ÞJ