Chaz með 31 stig í sigri á Stjörnunni

Chaz Williams mætti með látum inn í Subwaydeildina á nýjan leik þegar Njarðvík lagði Stjörnuna í fyrstu umferð tímabilsins. Lokatölur 91-88 Njarðvík í vil þar sem Williams var með 31 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Atkvæðamestur í liði Stjörnunnar var Ægir Þór Steinarsson með 29 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar. Frábærir báðir tveir í kvöld.

Kevin Kone leikmaður Stjörnunnar fylgdist með af tréverkinu í kvöld en eins og áður hefur verið greint frá kjálkabrotnaði hann í æfingaleik gegn Tindastól á dögunum.

Njarðvíkingar leiddu 20-18 eftir fyrsta leikhluta og í hálfleik var jafnt 41-41. Ægir og Chaz að leiða liðin sín í stigaskori en í síðari hálfleik seig Stjarnan fram úr og leiddi 61-65 eftir þriðja leikhluta. Öflug innkoma hjá Ásmundi Múla í Stjörnuliðinu og gaf hann Garðbæingum ferska vítamínsprautu í varnarleik sinn.

Í fjórða leikhluta steig Carlos Mateo upp í liði Njarðvíkinga og fór að skora og heimamenn náðu fljótlega undirtökunum. Stjörnumenn gerðu nokkrar heiðarlegar tilraunir í lokin til að jafna metin en lokatölur 91-88.

Njarðvíkingar með talsvert breytt lið frá síðustu leiktíð þar sem þeir Ólafur Helgi Jónsson og Logi Gunnarsson höfðu lagt skóna á hilluna eftir síðustu leiktíð og Haukur Helgi Pálsson skipt um félag. Ljónin lönduðu sigri þó torsóttur hafi verið og Chaz Williams sem er öllum hnútum kunnugur í Gryfjunni með 31 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar. Mario Matasovic kom næstur með 23 stig og 4 fráköst og Carlos Mateo bætti við 21 stigi og 5 fráköstum. Hjá Stjörnunni var Ægir Þór Steinarsson hrikalega flottur með 29 stig, 6 fráköst og 8 stoðsendingar og næstur honum var Antti Kanervo með 23 stig, 3-11 í þristum í kvöld en það verður ekki alltaf svoleiðis í vetur, mögnuð skytta hér á ferð. Ásmundur Múli Ármannsson fær einnig klapp á kollinn fyrir kröftuga innkomu í liði Garðbæinga.

Í næstu umferð tekur Stjarnan á móti Þór Þorlákshöfn í Garðabæ en Njarðvíkingar heimsækja Hauka í Ólafssal.

Tölfræði leiks