Heilsubótarganga Maté í Kópavoginum

Andlegri heilsu okkar er borgið! Subway-deildin er farin af stað! Einn af leikjum fyrstu umferðar fór fram í Smáranum en gestirnir rúlluðu í gegnum Garðabæinn úr Hafnarfirðinum. Haukarnir eru svo gott sem með glænýtt lið en Maté er enn í broddi fylkingar. Á Blikaliðinu hafa einnig orðið umtalsverðar breytingar, Ívar ,,rookie“ Ásgríms situr nú við stjórnvölinn, Snorri Vignis kominn aftur en liðið hlýtur að sakna Danero og Sigga P. umtalsvert. Hvað sér Kúlan í þessu?

Kúlan: ,,Blikar eiga engan séns! Þeir geta ekki neitt!“ Sagði Kúlan og hefur greinilega sogað í sig hvert einasta neikvæða orð sem fallið hefur úr hverjum munni um Blika að undanförnu. Tölur? ,,Hmmm..já, rokksolid 71-98 Haukasigur“.

Byrjunarlið

Breiðablik: Keith, Sölvi, Everage, Karl, Steadman

Haukar: Sigvaldi, Heinonen, Okeke, Tahvanainen, Moore

Gangur leiksins

Everage setti fyrstu stig leiksins en fátt jákvætt var að frétta af heimamönnum næstu mínútur. Hafnfirðingar tóku öll völd á vellinum, fengu gefins stig ítrekað eftir hræðilega tapaða bolta Blika. Ólafur Snær sendi smá vonarneista frá sér með þristi löngu síðar og minnkaði muninn í 12-23 þegar 4 mínútur lifðu af fyrsta fjórðung. Þó höfðu Haukamenn áfram tögl og hagldir í leiknum og leiddu 24-37 eftir einn. Blikar töpuðu 7 boltum í leikhlutanum og 37 stig fengin á sig í einum leikhluta kann ekki góðri lukku að stýra.

Gestirnir hótuðu að gera út um leikinn strax í öðrum fjórðung en Blikum tókst að hanga inn í þessu, munurinn var aðeins 14 stig, 36-50, þegar tæpar 4 voru til hálfleiks. Maté tók þá leikhlé fyrir sína menn og hafði vafalaust í hyggju að kæfa allar vonir heimamanna. Hálfleikstölur voru 45-62, ekki alveg búið en fátt benti til spennandi síðari hálfleiks. Jalen Moore var frábær í fyrri hálfleik, var kominn með 23 stig fyrir sína menn!

Haukar fóru mun betur af stað í þriðja leikhluta og bættu fljótt við forskotið. Vonleysið var áþreifanlegt Blikamegin og úrslit þannig séð ráðin snemma í leikhlutanum. Haukar leiddu 52-78 um miðjan leikhlutann og Maté orðið að ósk sinni. Eftir 30 leikmínútur stóðu leikar 60-94.

Ekki er ástæða til að hafa mörg orð um gönguferð Hafnfirðinga um Kópavoginn það sem eftir lifði leiks. Hugi, Hilmir, Sigvaldi og fleiri ungir leikmenn gestanna tóku við keflinu af Moore og öðrum erlendum leikmönnum liðsins og gengu rólega með stigin heim. Vægast sagt þægilegur og öruggur Haukasigur í kvöld, lokatölur 83-127.

Menn leiksins

Jalen Moore virðist vera fantagóður leikmaður, hann setti 21 stig samkvæmt stattinu (sem er reyndar mjög undarlegt því hann var með 23 stig í hálfleik!) og gaf 14 stoðsendingar. Ville Sakari Tahvanainen var stigahæstur með 27 stig…gullfallegt skot sem drengurinn er með.

Everage var eins og oft áður besti maður Blika, setti 18 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 6 fráköst.

Kjarninn

Þetta lítur ekkert sérstaklega vel út fyrir Blika þessa stundina. Samkvæmt Ívari er planið að gefa ungum strákum séns í vetur sem er hið besta mál en ef erlendir leikmenn liðsins gera ekki betur fer liðið augljóslega lóðbeint niður í vor. En það er heimskulegt að örvænta fyrir hönd Blika eftir einn leik, erlendir leikmenn liðsins eiga eftir að koma sér betur inn í þetta, sumir nýkomnir til landsins eins og gengur. Benda má einnig á að Snorri Vignis og Árni Elmar léku ekki með í kvöld, líkast til vegna meiðsla.

Það er hins vegar allt í toppstandi á Völlunum. Ekki er annað að sjá en að Maté gangi ljómandi að bræða saman í nýtt lið og erlendir leikmenn liðsins líta mjög vel út! Það verður gaman að fylgjast með þeim í vetur og Maté á það inni að lykilmenn haldist meira og minna heilir. Undirritaður heimtar það af forsjóninni.

Tölfræði leiks