09:59:28
Boston tryggði sér sæti í undanúrslitum Austurdeildar NBA í nótt með sigri á Chicago Bulls í oddaleik, 109-99. Þessi leikur batt enda á sögulega rimmu þar sem fjórir leikir réðust í framlengingu og urðu framlengingarnar alls sjö.
Þannig voru met sett bæði með fjölda framlengdra leikja í einni seríu og einnig heildarfjölda framlenginga í úrslitakeppni, og þetta var bara fyrsta umferð!
Boston tóku stjórnina í öðrum fjórðungi í nótt og voru með 14 stiga forskot í hálfleik. Chicago saxaði svo jafnt og þétt á muninn og komst allt niður í 3 stig þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka. Celtics voru svo sterkari á lokakaflanum og unnu góðan sigur og get nú farið að búa sig undir fyrstu viðureignina við Orlando Magic á morgun.
Ray Allen var stigahæstur Celtics með 23 stig og Paul Pierce var með 20. Eddie House bætti við 16, Glen Davis 15 og Kendrick Perkins var með 14 stig og 13 fráköst.
Hjá Bulls var Ben Gordon með 33 stig, Derrick Rose með 18, Kirk Hinrich 16 og John Salmons 12. Þá var Joakim Noah með 15 fráköst.
Hið unga lið Chicago kom sannarlega á óvart í þessum leikjum, en fáir bjuggust við miklu af þeim eftir vetur sem einkenndist af óstöðugleika. Þó talað hafi verið um að Kevin Garnett vantaði hjá Boston, má ekki gleymast að Chicago lék án Luol Deng og þess utan urðu miklar breytingar á leikmannahópnum í skiptaglugganum. Þau skipti gerðu hins vegar lítið annað en að bæta gengi liðsins til mikilla muna. John Salmons var sérstaklega mikill styrkur fyrir Chicago, en nú er að sjá hvort þeir nái að halda hópnum saman í sumar. Gordon er samningslaus en hefur lýst yfir vilja til að vera áfram hjá Bulls.
Tölfræði leiksins